Viðskipti innlent

Afnám gjaldeyrishafta lýkur síðar en vænst var

Síðdegis í gær birti Seðlabanki Ísland áætlun um afnám gjaldeyrishafta. Afnám haftanna er ein helsta forsenda þess að íslenska hagkerfið komist í samt lag þannig að fjármagnsmarkaðir opnist til að auka skilvirkni fjárfestinga og lánastarfsemi innlendra aðila. Að mati Seðlabankans mun afnámi haftanna ljúka eftir tvö til þrjú ár.

Núverandi fyrirkomulag leyfir greiðslur vegna vöru- og þjónustuviðskipta og beinna fjárfestinga innanlands, þar af leiðandi greiðslur sem tengjast inn- og útflutningi vöru og þjónustu.

Jafnframt eru heimilaðar vaxtagreiðslur ef þeim er breytt í gjaldeyri innan tiltekins tíma. Aftur á móti eru skilyrði á flesta fjármagnsflutninga bæði innlendra og erlendra aðila, nema þá vissra aðila sem fá undanþágu. Þetta kemur fram í morgunkorni Íslandsbanka.

Í áætluninni er útskýrt að nauðsynlegt er að afnema höftin í áföngum til að tryggja stöðugleika íslensku krónunnar og þjóðarbúskapsins.

Seðlabankinn horfir sérstaklega til að afnám hvers áfanga er einungis mögulegt að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.

Jafnframt að peningastefnu hans verði stýrt með tilliti til stöðugleika í gengismálum, að framvinda endurreisnar efnahagslífsins og áætlaður afgangur af viðskiptajöfnuði munu styðja við krónuna, og verulegur gjaldeyrisforði sé til staðar hjá bankanum.



Fyrsti áfangi um afnám gjaldeyrishafta


Þau skilyrði sem nauðsynlegt er að uppfylla, áður en fyrsti áfangi áætlunar um afnám gjaldeyrishafta á innstreymi fjármagns mun eiga sér stað, eru m.a. að komið verði á fót sterku fjármálakerfi sem er vel stjórnað og undir tilhlýðilegu eftirliti, að komið verði á skilvirku fyrirkomulagi lausafjárstýringar og að safnað verði nægum gjaldeyrisforða.

Gerir Seðlabankinn ráð fyrir að skilyrðum þessum verði fullnægt talsvert fyrir 1. nóvember næstkomandi.

Þá verður höftum af öllu innstreymi erlends gjaldeyris létt á tiltölulega skömmum tíma.

Búast má við að fyrsti áfangi áætlunarinnar geti haft jákvæð áhrif á gjaldeyrisforða Seðlabankans og auki það svigrúm sem hann hefur til sporna gegn miklum sveiflum í gengi krónunnar.

Síðari áfangi um afnám gjaldeyrishafta

Síðari áfanga afléttingarferilsins á útstreymi fjármagns verður hrint í framkvæmd að loknum fyrsta áfanga, en þó í smáum skrefum sem Seðlabankinn ákveður.

Við framkvæmd áfangans verður sérstaklega tekið tillit til stærðar gjaldeyrisforða bankans og nægilegrar endurheimtu trausts á íslenska bankakerfið og hlutabréfamarkaðinn.

Í þessum áfanga verður fyrst aflétt höftum á útstreymi vegna tiltekinna reikninga, eignaflokka og viðskipta með sem fjarlægasta gjalddaga.

Verður þetta gert hægt og rólega eftir því sem gjaldeyrisforðinn styrkist, horfur um greiðslujöfnuð batna og traust á innlenda fjármálakerfið eykst. Síðar verður hafist handa við að létta höftum af flokkum sem einkennast af fjárfestingum til miðlungslangs og skamms tíma.



Að sögn Seðlabankastjóra er líklegt að afnám haftanna verið að fullu lokið eftir tvö til þrjú ár. Það er því ljóst að afnám haftanna mun taka nokkuð lengri tíma en að var stefnt í upphafi aðgerðaráætlunar íslenskra stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Áætlunin var samþykkt í nóvember í fyrra og var reiknað með að afnema höftin að fullu á gildistíma áætlunarinnar sem þá var tvö ár.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×