Körfubolti

Guðrún Gróa byrjaði lokaúrslitin á persónulegu stigameti

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir (til hægri) er að spila vel með KR-liðinu.
Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir (til hægri) er að spila vel með KR-liðinu. Mynd/Vilhelm

Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir átti mjög góðan leik með KR í fyrsta leik lokaúrslita Iceland Express deildar kvenna á Ásvöllum. Gróa var stigahæst í KR-liðinu með 19 stig í 61-52 sigri á Haukum. Annar leikur einvígsins milli Hauka og KR er í DHL-Höllinni klukkan 19.15 í kvöld.

Guðrún Gróa hefur verið rómuð fyrir frábæran varnarleik í allan vetur en eftir áramót hefur hún vaxið nánast í hverjum leik í sókninni. Gróa var með 8,0 stig í deildinni fyrir áramót, skoraði 10,0 stig að meðaltali í deildinni eftir áramót og er síðan búin að skora 12,8 stig að meðaltali í síðustu fjórum leikjum KR í úrslitakeppninni.

Guðrún Gróa setti með þessu persónulegt stigamet en hún hafði mest áður skorað 17 stig í leik á Íslandsmóti en því náði hún í á móti Hamar 29. nóvember 2008.

Gróa hitti úr 8 af 10 skotum sínum í leiknum, tók 10 fráköst og skilaði alls 27 framlagsstigum til KR-liðsins en hún hitti meðal annars úr öllum fjórum skotum sínum fyrir utan teig.

Guðrún Gróa átti einnig mikinn þátt í að halda aftur af Slavicu Dimovsku sem var aðeins með 3 stig og 1 stoðsendingu í fyrstu þremur leikhlutunum. KR-liðið var þá komið fimmtán stigum yfir, 43-28. Slavica skoraði 16 stig í lokaleikhlutanum sem Haukar unnu 24-18.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.