Viðskipti innlent

Telur forsendur fyrir stýrivaxtalækkun upp á 2-3 prósentustig

Ingvi Örn Kristinsson forstöðumaður hagfræðideildar Landsbankans telur að forsendur séu að skapast fyrir stýrivaxtalækkun hjá Seðlabankanum. Nefnir hann aðspurður að 2-3 prósentustiga lækkun væri ekki fjarri lagi.

Fleiri sérfræðingar sem Fréttastofa ræddi við um málið í dag eru sammála mati Ingva þótt menn séu almennt tregir til að nefna ákveðnar tölur í þessu sambandi.

Jón Bjarki Bentsson hjá greiningardeild Íslandsbanka segir að vissulega séu að skapast forsendur fyrir stýrivaxtalækkun þar sem verðbólgan er á niðurleið og ekki útlit fyrir annað en að gengi krónunnar haldist stöðugt eða styrkist jafnvel enn frekar á næstunni.

Ingvi Örn bendir einnig á lækkandi verðbólgu og nefnir að verðbólgumælingin í síðasta mánuði hefði sýnt minni verðbólgu en menn áttu almennt von á. Þetta sýnir m.a. að fasteignaverð sé nú að bíta vel í lækkun verðbólgu og verði svo áfram.

Jón Bjarki segir að þó verði að taka tillit til þess hvort að peningamálanefnd Seðlabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, sem hefur töluvert um málið að segja, meti það svo að verðbólgan sé að lækka nægilega hratt þessa dagana til að rökstyðja megi stýrivaxtalækkun í næstu viku þegar ákvörðun verður tekin um vextina.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×