Viðskipti innlent

Samningar A4 og Pennans kunna að stangast á við lög

Samtök iðnaðarins telja að nýir samningar sem fyrirtækin A4 og Penninn vilja einhliða gera við birgja, kunni að stangast á við lög. Málið var rætt á fundi í höfuðstöðvum samtakanna í morgun.

Ritfangakeðjan A4 fór í þrot. Ríkisbanki hefur tekið félagið yfir og stofnað nýtt, sem heitir JK Trading en starfar samt sem áður undir heitinu A4.

Félagið hefur sent birgjum sínum drög að nýjum viðskiptasamningi. Þar er meðal annars kveðið á um að ekki verði greiddur nema helmingur af útistandandi viðskiptaskuld fyrirtækisins við birginn. Birgjar eru æfir yfir þessu og kalla kennitöluflakk.

Málið var rætt á starfsmannafundi hjá Samtökum iðnaðarins í morgun. Samningsgerð af þessu tagi vekur spurningar. Ekkert hefur verið ákveðið um málið eftir því sem næst verður komist.

Hins vegar ætla menn að kanna lögmæti samninga af þessu tagi. Menn velta enn fremur fyrir sér hvort ríkið standi í kennitöluflakki, en samtökin hafa lengi barist gegn því.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×