Viðskipti innlent

Ársreikningur Strætó: Venjulegt fyrirtæki væri ekki rekstrarhæft

Rekstrarniðurstaða Strætó fyrir árið 2008 var neikvæð um 352 milljónir króna sem er aukning um 81 prósent á milli ára en árið 2007 var hún neikvæð um 195 milljónir. Eiginfjárhlutfall er neikvætt um 57 prósent.

Í umsögn borgarráðs um ársreikninginn kemur fram að þetta sé fjórða árið í röð sem rekstrarniðurstaðan er neikvæð.

„Ef um venjulegan fyrirtækjarekstur væri að ræða myndi staða sem kalla á fyrirvara í áritun ytri endurskoðanda en þess er ekki þörf þar sem hlutaðeigandi sveitarfélög bera einfaldlega ábyrgð á skuldbindingum fyrirtækisins," segir einnig í umsögninni en 57 prósenta neikvætt eiginfjárhlutfall myndi hjá „venjulegu" fyrirtæki einfaldlega þýða að fyrirtækið væri ekki rekstrarhæft.

Tekjur jukust um 13 prósent á milli ára en helstu tekjur eru framlög eigenda sem námu 2,5 milljörðum á árinu og jukust um 12 prósent á milli ára. Fargjöld nema 675 milljónum og stendur sú tala nánast í stað.

Í umsögn borgarráðs er bent á að hlutfall fargjalda í tekjum hafi lækkað úr 37 prósentum í 21 prósent frá árinu 2004 á kostnað framlaga frá eigendum.

Þá kemur einnig fram að veltufjárhlutfall, sem sýnir hæfi fyrirtækis til þess að inna af hendi skuldagreiðslur á næstu mánuðum er 0,60 hjá Strætó, sem er óásættanlegt að mati fjármálastjóra Reykjavíkurborgar sem ritar umsögnina. Skuldsetningarhlutfall Strætó telst einnig verulega hátt, eða - 194 prósent.

Í niðurlagi umsagnarinnar segir að framundan sé kostnaðarsöm endurnýjun á vögnum, akstursamningar verktaka renna út í lok árs og vísbendingar eru um enn frekari kostnaðarhækkanir. „Alls telur fyrirtækið að árlegur kostnaðarauki nemi á bilinu 500 til 700 milljónum króna. Ljóst er einnig að við núverandi skilyrði þar sem hallarekstur hefur verið fjármagnaður með lántökum muni verulegur vaxtakostnaður íþyngja fyrirtækinu á næstu misserum.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×