Viðskipti innlent

Grét með dótturina í fanginu þegar bankinn féll

Ármann Þorvaldsson
Ármann Þorvaldsson

Lýsingin á því þegar ljóst var að Kaupthing Singer & Friedlander færi í greiðslustöðvun er nokkuð dramatísk í bók Ármanns Þorvaldssonar fyrrum forstjóra bankans sem kemur út í þessari viku. Hann segir að þegar FSA, Breska fjármálaeftirlitið, vildi setja bankann í greiðslustöðvun hafi verið óskað eftir samvinnu stjórnarinnar. Ármann segir að þar sem bankinn hafi ekki átt aðra kosti hafi þeir samþykkt það daufir í bragði.

„Fyrir löngu las ég grein í tímariti þar sem ýmsir þjóðþekktir einstaklingar voru spurðir af hverju karlmenn grétu ekki. Ingi Björn Albertsson var einn þeirra sem svöruðu spurningunni og einhverra hluta vegna varð mér svar hans minnisstætt. Hann sagði ástæðuna þá að grátur væri merki um uppgjöf. Karlmenn grétu einungis þegar þeir hefðu leitað allra leiða til að leysa það vandamál sem þeir stæðu frammi fyrir. Þannig leið mér þegar ég sat aleinn á skrifstofu minni að loknum stjórnarfundinum. Öllu var lokið. Það voru engar lausnir til, ekki hægt að hringja í neinn, engar frábærar hugmyndir. Í fyrsta sinn þessa erfiðu viku fann ég hvernig ég fékk kökk í hálsinn. Ég vildi komast út af skrifstofunni, út úr húsinu og heim," skrifar Ármann.

En hann gat ekki farið. Hann þurfti að bíða eftir tilsjónarfólki þrotabúsins og koma á fundi með stjórnendum bankans. Tengiliðir þeirra frá FSA vildu koma sjálfir og afhenda honum greiðslustöðvunartilkynninguna.

„Næstu fjórir tímar fóru í að halda aftur af tárunum. Þegar samtarfsmenn komu til að athuga hvernig mér liði starði ég aðeins á gólfið. Það var ekki vegna þess að ég væri reiður eða í uppnámi. Ég vissi það eitt að ég myndi bresta í grát ef ég svaraði. Ég gat ekki heldur hringt í Þórdísi, foreldra mína eða börnin mín. Ég vissi að ég myndi brotna niður um leið og ég heyrði rödd þeirra. Ég gat ekki einu sinni haldið andlitinu þegar starfsmenn eftirlitsins komu og afhentu mér greiðslustöðvunartilkynninguna. Röddin brast og mér vöknaði um augu svo að ég kvaddi þau í flýti og sneri til baka á skrifstofu mína."

Síðari hluta dagsins fór hann heim. Þrettán ára dóttir hans og þriggja ára sonur voru heima og hann hugðist gera það sem hann gæti til að halda andlitinu gagnvart þeim.

„En um leið og ég sá þau féll ég saman og grét óstjórnlega. Dóttir mín, sem vissi hvað hafði gerst, brast einnig í grát í fanginu á mér. Atli starði á okkur stóreygður þar sem við grétum, byrjaði að kjökra og spurði ítrekað hvað væri að. Næstu vikurnar minnti hann fólk reglulega á daginn sem pabbi hafði lent í slysi í vinnunni."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×