Erlent

Handtekinn fjórum sinnum á einum sólarhring

Það mistókst aftur og aftur og aftur og aftur hjá dönskum manni að komast ferða sinna á farartækjum sem ekki tilheyrðu honum. Hann var handtekinn fjórum sinnum á einum sólarhring.

Maðurinn er tuttugu þriggja ára og búsettur á Suður Jótlandi. Í miðri síðustu viku var honum greinilega mikið í mun að komast á einhvern ákveðinn stað. Kvöldið byrjaði með því að lögreglan stöðvaði hann þar sem hann ók bíl sínum undir áhrifum fíkniefna. Hann var færður á lögreglustöðina þar sem hann var yfirheyrður.

Að því loknu gekk hann aðeins nokkur skref frá lögreglustöðinni og stal þá hjóli í eigu lögreglunnar. Ekki vildi betur til en hann datt og nefbraut sig. Þegar búið var að búa um brotið var hann enn ákveðinn í að komast á áfangastað.

Hann stal þá skellinöðru og var handtekinn í þriðja sinn stuttu seinna. Eftir enn eina yfirheyrsluna náði hann sér í kúbein og braust inn í bíl á bílastæði rétt hjá lögreglustöðinni. Enn einu sinni var maðurinn handtekinn og færður til yfirheyrslu, í fjórða sinn á einum sólarhring.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×