Axel Kárason hefur ákveðið að spila með Tindastól í Iceland Express deildinni á næsta tímabili en þetta kemur fram á heimasíðu Tindastóls í dag. Axel er öflugur leikmaður og styrkir Stólana mikið.
Axel var við nám í dýralækningum í Ungverjalandi síðasta vetur en kom heim um tíma og lék fimm leiki með Tindastól. Þar á undan lék hann í þrjú tímabil með Skallagrími. Axel er hinsvegar uppalinn í herbúðum Tindastóls og lék einnig 105 úrvalsdeildarleiki með meistaraflokki félagsins frá 2000 til 2005.
Axel er þriðji heimamaðurinn sem er kominn aftur í sína heimasveit og ætlar að spila með Tindastól á næsta tímabili. Hinir tveir, Friðrik Hreinsson og Helgi Freyr Margeirsson, komu einnig til liðsins um mitt tímabil síðasta vetur og hafa tilkynnt að þeir verði um kyrrt.