Viðskipti innlent

Svínaflensan gæti kostað Ísland um 50 milljarða

Mynd/ AFP.

Svínaflensan gæti kostað Íslendinga allt að rúmum 50 milljörðum kr. ef hún breytist í skæðan faraldur. Ef um vægan faraldur verður að ræða er kostnaðurinn í kringum 13 milljarðar kr.

Þetta má sjá ef framreiknaðar eru tölur úr skýrslu sem sérstakur starfshópur á vegum forsætisráðuneytisins sendi frá sér árið 2006. Skýrslan bar heitið „Mat á efnahagslegum áhrifum og hagvarnarráðstafanir vegna hugsanlegs heimsfaraldurs inflúensu".

Í skýrslunni segir að mat á efnahagslegum áhrifum hugsanlegs heimsfaraldurs inflúensu er þeirri óvissu háð að ekki er vitað með vissu hvort um farald verði að ræða eða hversu skæður hann verður og því þarf að hafa fyrirvara á þeim niðurstöðum sem hér eru kynntar.

Þrjár sviðsmyndir

Í skýrslunni er gert ráð fyrir þremur sviðsmyndum og eru áhrifin meiri eftir því sem faraldurinn er skæðari. Sú fyrsta ráð fyrir að landinu verði lokað og faraldurinn berist ekki til landsins gæti samdráttur landsframleiðslunnar numið um ¼% að raungildi á ársgrundvelli.

Sviðsmynd 3 er versta tilfellið sem byggist einnig á forsendum sóttvarnarlæknis. Hér er reiknað með 50% sýkingartíðni og 2,8% dánartíðni sjúkdómstilfella.

Lauslega áætlaður kostnaður vegna hagvarnarráðstafana er síðan metinn í skýrslunni. Verði um vægan faraldur að ræða gæti landsframleiðslan minnkað um 1% á ársgrundvelli en allt að 4% við skæðan faraldur. Samdráttur í landsframleiðslu um 1% jafngildir um 14,6 milljörðum króna miðað við árið 2008.

Mat á efnahagsáhrifum

Ef lagt er mat á þennan kostnað m.v. árið í ár má nefna að búist er við að landsframleiðslan dragist saman um rúmlega 10% frá því í fyrra. Eins prósents minni landsframleiðslan í viðbót þýðir því um 13 milljarða kr. í ár. Verði svínaflensan að skæðum faraldri má því reikna með að kostnaður þjóðarbúsins nemi rúmlega 50 milljörðum kr.

Í skýrslunni segir að reiknað er með að efnahagsstarfsemin nái sér fljótt aftur á strik í kjölfar faraldurs enda miðast samdráttur landsframleiðslunnar við áhrif til skamms tíma.

Í skýrslunni segir um efnahagsáhrifin: "Þjóðarútgjöld, þ.e. einkaneysla og fjárfesting, munu án efa minnka sökum heimsfaraldurs. Ekki er reiknað með að samneysla dragist saman sem afleiðing af slíkum faraldri. Þvert á móti er líklegra að samneyslan aukist þar sem búast má við aukningu eftirspurnar eftir heilbrigðisþjónustu.

Gera má ráð fyrir að töluverður hópur fólks verði fyrir tekjutapi og líklega neikvæðum auðsáhrifum ef eignaverð lækkar tímabundið. Af því leiðir minni einkaneysla, sérstaklega hjá þeim heimilum þar sem takmarkaður peningalegur sparnaður er til staðar. Þá ber að nefna að gera má ráð fyrir að fólk muni draga úr ferðum í verslanir og aðrar þjónustustofnanir á meðan faraldurinn stendur yfir.

Einnig er líklegt að kaup á varanlegum og hálfvaranlegum neysluvarningi minnki. Minni eftirspurn heimilanna tímabundið mun væntanlega leiða til meiri sparnaðar, sem síðar verður ráðstafað í aukna einkaneyslu.

Bitnar verst á þjónustugeiranum

Þjónustugeirinn mun sennilega verða verst úti ef faraldur kemur upp. Ástæðan er sú að þjónusta felur það í sér að fólk hittist og smitmöguleikar verða til. Af þessum sökum má búast við að eftirspurn eftir þjónustu minnki ef til faraldurs kemur.

Ferðamanna- og skemmtanaiðnaður og veitingahúsarekstur eru líklega þær þjónustugreinar sem eru viðkvæmastar fyrir hugsanlegu áfalli sökum faraldurs. Flugfélög verða að öllum líkindum fyrir rekstrartruflunum í faraldrinum.

Starfsemi leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla gætu að einhverju leyti lagst tímabundið af. Þess skal getið að ferðahömlur, samkomubann og skólalokanir gætu verið hluti sóttvarnarráðstafana.

Verslanir, sem selja aðrar vörur en nauðþurftir, gætu lent í erfiðleikum. Þannig munu efnahagsleg áhrif faraldurs koma misjafnlega við hinar ýmsu atvinnugreinar.

Fyrirtæki í vöruframleiðslu munu væntanlega einnig verða fyrir áhrifum vegna þess að erfitt getur reynst að afla aðfanga. Þar að auki gæti orðið erfitt að flytja vörur á markað bæði innanlands og erlendis.

"














Fleiri fréttir

Sjá meira


×