Viðskipti innlent

Leiðbeinir íslenskum fyrirtækjum um samfélagsábyrgð

Steve Rochlin, einn fremsti alþjóðlegi sérfræðingurinn hvað varðar samfélagsábyrgð fyrirtækja, mun leiðbeina íslenskum fyrirtækjum um hvernig þau geta innleitt samfélagsábyrgð í daglegum rekstri. Þetta er í fyrsta skipti sem að hópur íslenskra fyrirtækja kemur saman hér á landi til þess að efla sig á þessu sviði.

Í tilkynningu um málið segir að Steve mun einnig hitta á forsvarsmenn helstu samtaka atvinnulífsins og yfirvalda, þ.á.m. ráðherra, og ræða um tækifæri Íslands á vettvangi samfélagsábyrgðar og endurreisn viðskiptalífsins á þeim grundvelli.

Steve hefur ráðlagt fjölda fyrirtækja t.d. British Telecom, Nestlé, JP Morgan Chase og Chevron og yfirvöldum víða um heim um þessi mál t.d. í Kína og Sameinuðu furstadæmunum. Hann hefur þróað með Sameinuðu þjóðunum leiðir fyrir fyrirtæki til að auka samkeppnishæfni sína á grundvelli ábyrgðar.

Hér á landi er í sífellu talað um hrunið og það sem að fór úrskeiðis. Það er minna bent á leiðir út úr hruninu. Steve hefur einmitt þann boðskap fram að færa.

Hér er um mikilvægan málaflokk að ræða sem að er lítið þekktur hér á landi. Evrópusambandið hefur t.d. lagt mikla áherslu á samfélagsábyrgð í kjölfar efnahagsþrenginganna til þess að vinna aftur traust á fyrirtækjun. Yfirvöld í Danmörku hafa mótað stefnu til þess að auka samkeppnishæfni og orðstír danska einkageirans.

Steve kemur hingað til lands á vegum Eþikos, miðstöðvar Íslands um samfélagsábyrgð fyrirtækja, við Háskólann í Reykjavík.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×