Viðskipti innlent

Útrásarvíkingar þurfa að svara fyrir greiðslukortanotkun

Hinir svokölluðu útrásarvíkingar eru meðal þeirra sem fá sent bréf frá Ríkisskattstjóra í næstu viku þar sem þeir eru beðnir um að gera grein fyrir notkun á erlendum kreditkortum hér á landi.

Rannsókn Ríkisskattstjóra á kortanotkun efnamanna hefur verið viðamikil en heimild fékkst síðasta haust til að nálgast upplýsingar um hreyfingar á kortunum. Kortin eru gefin út erlendis og skuldfærð þar en notuð til úttektar á Íslandi. Þannig hefur fólk geta komist hjá því að greiða skatt af tekjum sínum. Ríkisskattstjóri krafðist upplýsinga frá eigendum verslana hvaða einstaklingar voru á bak við greiðslukort sem notuð voru í viðskiptum. Um 60 greiðslukort hafa verið í skoðun en í sumum tilvikum eiga sömu einstaklingarnir fleiri en eitt kort. Dæmi um að einstök kort hafi verið notuð fyrir allt að 40 milljónir á einu ári. Ríkisskattstjóri mun í næstu viku senda viðkomandi einstaklingum bréf þar sem óskað er eftir því að þeir geri grein fyrir erlendum tekjum og eignum.

Heimildir fréttastofu herma að þeirra á meðal séu aðilar sem hafa verið umsvifamiklir í viðskiptalífinu og teljist til hinna svokölluðu útrásarvíkinga. Geti þeir ekki gefið eðlilegar skýringar á kortanotkuninni verður mál þeirra sent til skattrannsóknarstjóra.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×