Viðskipti innlent

Ætla að auka eftirlit með bönkum og lánastofnunum

Neytendastofa og norrænar systurstofnanir hennar, sem fara með eftirlit og framkvæmd laga á sviði neytendamála á Norðurlöndunum, hafa markað sér þá sameiginlegu stefnu fyrir næsta ár að auka eftirlit með bönkum og lánastofnunum með það að markmiði að réttindi neytenda séu að fullu virt.

Í tilkynningu segir að þetta var ein af niðurstöðum árlegs samráðsfundar forstöðumanna neytendamála, sem haldinn var í Reykjavík í liðinni viku. Þá var ákveðið að vinna sérstaklega að því að tryggja réttindi neytenda á sviði neytendalána og viðskipta þeirra við fjármálastofnanir.

Tryggvi Axelsson, forstjóri Neytendastofu, segir að fjármálakreppan og það efnahagsástand sem hefur skapast í kjölfar hennar hafi nú þegar valdið miklum erfiðleikum fyrir neytendur á Norðurlöndum. „Allt bendir til að allar afleiðingar hennar séu enn ekki komnar að fullu fram og hvaða áhrif hún muni hafa á lögvarin réttindi neytenda á næstu árum."

Hann bendir á að mikilsvert sé að bankar og önnur fjármálafyrirtæki virði að öllu leyti sett lög á sviði neytendalána. Það séu ríkir hagsmunir fyrir neytendur og samfélagið í heild að eftirlit sé haft með réttindum neytenda í viðskiptum við banka og önnur fjármálafyrirtæki.

Tryggvi segir að á fundinum hafi komið fram að eftir að kreppan skall á hafi stórfjölgað erindum og fyrirspurnum frá neytendum um réttindi sín gagnvart bönkum og lánastofnunum. „Þetta hefur ekki aðeins gerst hér á landi heldur einnig á Norðurlöndunum. Bankar hafa ríka upplýsingaskyldu gagnvart viðskiptavinum og ríkar kröfur eru gerðar til skilmála í lánssamningum við neytendur. Því er áríðandi að lög og reglur um lánastarfsemi séu hafðar í heiðri."

Neytendastofa hefur fengið fjölda mála á undangengnu ári er varða ágreining neytenda og fjármálastofnana og segir Tryggvi að þau mál hafi ákveðinn forgang. „Neytendayfirvöld á Norðurlöndum líta á þetta eftirlit sem forgangsverkefni og hyggjast standa öflugan vörð um réttindi neytenda og fjárhagslega hagsmuni þeirra á þessum erfiðu tímum."










Fleiri fréttir

Sjá meira


×