Viðskipti innlent

Keyptu af sjálfum sér fyrir sjálfa sig með kröfu á sjálfa sig

Steingrímur og Karl Wernerssynir.
Steingrímur og Karl Wernerssynir.

Wernersbræður létu eigin kröfu á hendur Milestone, ganga upp í kaup á Lyfjum og heilsu út úr fyrirtækinu. Þetta staðfestir Guðmundur Ólason, forstjóri Milestone.

Fram kemur í frétt Þórðar Snæs Júlíussonar, í Morgunblaðinu í dag, að Karl og Steingrímur Wernerssynir, hefðu í mars í fyrra, selt sjálfum sér, fyrirtækið Lyf og heilsu, út úr Milestone. Þetta var í sama mund og flest fyrirtæki Milestone voru færð undir sænska félagið Moderna. Þeir hafi yfirtekið skuldir og greitt um níu hundruð milljónir af kaupverðinu með seljendaláni sem ætti að greiðast við fyrsta hentugleika.

Guðmundur Ólason, forstjóri Milestone, baðst undan viðtali við fréttastofu, en staðfesti að þetta væri svona. Þetta væri þó ekki frétt í sínum huga. Ekki hafi þótt við hæfi að lyfjafyrirtækið færi inn í sænskt fjárfestingafélag. Þá hefðu bræðurnir yfirtekið skuldir, sem samkvæmt Þórði Snæ, námu tveimur og hálfum milljarði. Seljendalánið er greitt segir Guðmundur. Það gerðu þeir upp í gegnum félagið, segir Guðmundur, með kröfu sem var „nettuð út" annars staðar.

Spurður um hvort einhverjir peningar hafi farið frá bræðrunum vegna kaupa á Lyfjum og heilsu af Milestone, segir Guðmundur, að þeir hafi bara greitt með kröfunni, hún teljist vera greiðsla.

Milestone var að öllu leyti í eigu Wernersbræðra. Þeir seldu því sjálfum sér Lyf og heilsu, tóku yfir eigin skuldir og greiddu mismuninn með kröfu í sjálfum sér.

Skuldirnar sem fylgdu Lyfjum og heilsu hafi verið við íslenska viðskiptabanka.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×