Viðskipti innlent

Sókn í leiguhúsnæði hefur aukist um 25% milli ára

Talsvert aukin sókn hefur verið í leiguhúsnæði á undanförnum mánuðum en á fyrstu átta mánuðum ársins höfðu alls 7.406 leigusamningum með íbúðarhúsnæði verið þinglýst samanborið við 5.916 á sama tímabili fyrir ári. Þetta er aukning upp á 25%.

 

Greining Íslandsbanka fjallar um málið í Morgunkorni sínu en framangreindar upplýsingar koma fram í gögnum sem Fasteignaskrá Íslands tekur saman og birt voru í gær. Á síðustu þremur mánuðum þessa árs var þinglýst 3.067 leigusamningum sem eru 14% fleiri samningar en á sama tímabili í fyrra og 90% aukning frá 2007 þegar samningarnir voru 1.611 á þessum tíma.

 

Á höfuðborgarsvæðinu hefur mun fleiri leigusamningum verið þinglýst með húsnæði í ár en kaupsamningum og hefur markaðurinn fyrir kaup og sölu á íbúðarhúsnæði dregist umtalsvert saman á sama tíma og leigumarkaðurinn hefur stækkað.

 

Aukin sókn í leiguhúsnæði skýrist án efa af efnahagsástandinu. Undanfarið hefur sala á íbúðarhúsnæði verið erfið, veltan á íbúðamarkaði lítil og verð farið lækkandi. Í slíku ástandi velja eflaust margir frekar að leigja út íbúðir sínar fremur en að láta þær standa auðar.

 

Á móti eru kaupendur fáir, enda efnahagur heimila skaddaður af kaupmáttar- og eignarýrnun síðustu mánaða. Væntingar eru um frekari verðlækkun íbúðarhúsnæðis og vilja margir eflaust forðast að láta eigið fé sitt undir í íbúðarkaupum við slíkar aðstæður. Fleiri velja því að leigja og hefur spurn eftir slíku húsnæði þannig farið vaxandi, þrátt fyrir að stór hluti erlendra aðila sem hér var umfangsmikill á leigumarkaði fyrir hrunið sé nú fluttur erlendis.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×