Viðskipti innlent

Ritstjóri Morgunblaðsins enn eigandi Viðskiptablaðsins

Haraldur Johannessen er enn eigandi Viðskiptablaðsins samkvæmt upplýsingum frá Lánstrausti.
Haraldur Johannessen er enn eigandi Viðskiptablaðsins samkvæmt upplýsingum frá Lánstrausti.
Haraldur Johannessen nýráðinn ritstjóri Morgunblaðsins er enn eigandi Viðskiptablaðsins sem hann ritstýrði áður. Samkvæmt nýjustu upplýsingum frá Lánstrausti er Útgáfufélagið Myllusetur í 100% eigu Haraldar en það félag keypti Viðskiptablaðið í nóvember á síðasta ári af félaginu Framtíðarsýn sem átti blaðið áður.

Nokkur leynd hefur verið yfir því hverjir eigi Myllusetur og var athafnamaðurinn Róbert Wessmann meðal annars sagður eiga hlut í því´. Hann hefur hinsvegar neitað að eiga nokkuð í félaginu.

Þá vakti athygli þegar Gísli Freyr Valdórsson blaðamaður á Viðskiptalaðinu keypti allt hlutafé í Framtíðarsýn á eina krónu. Hann tók við sem stjórnarformaður í félaginu í kjölfarið eftir að félagið fór í greiðslustöðvun. Viku síðar seldi hann síðan allar eignir félagsins til Mylluseturs gegn yfirtöku á hluta af skuldum félagsins. Framtíðarsýn var síðan tekið til gjaldþrotaskipta.

Vísir hefur ítrekað reynt að ná tali af Haraldi í dag en án árangurs. Sigurður Már Jónsson núverandi ritstjóri Viðskiptablaðsins benti á nýráðinn framkvæmdarstjóra blaðsins Pétur Árna Jónsson þegar hann var spurður út í hver ætti blaðið. Ekki hefur heldur náðst í Pétur Árna þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir í dag en hann situr í stjórn Mylluseturs ásamt Haraldi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×