Viðskipti innlent

Norðmenn halda uppi smíði hraðfiskibáta hérlendis

Norskir sjómenn og útvegsmenn halda uppi smíði hraðfiskibáta hér á landi, eftir að innanlandsmarkaðurinn hrundi. Er nú svo komið að engin bátur er í smíðum hérlendis fyrir Íslendinga.

Innanlandsmarkaðurinn fyrir þessa báta hrundi í kjölfar síðustu breytinga á kvótakerfinu, þar sem hluti smábátasjómanna fékk kvóta í stað veiðidaga og menn fóru að geta selt kvóta og hætt útgerð.

Botninn datt þá alveg úr smíði þessara báta í fyrra og horfði ískyggilega fyrir fyrirtækin þrjú, sem stunda þessa smíði og hafa þróað bátana hratt síðustu misserin. En þá opnaðist Noregsmarkaður óvænt, og voru 19 stórir og öflugir hraðfiskibátar smíðaðir fyrir þá í fyrra og útlit er fyrir álíka fjölda á þessu ári.

Sú eftirspurn lætur nærri að fullnægja framleiðslugetunni, en bátasmiðir, sem Fréttastofan hefur rætt við, segja þó að framgangur málsins standi og falli með því að bankakerfinu takist að annast eðlilegar millifærslur á gjaldeyri og útvega bátasmiðjunum framleiðslulán, til að brúa smíðatímann.

Fullbúnir svona bátar, með öllum tækjabúnaði, kosta á bilinu 80 til 90 milljónir króna, þannig að þarna eru talsverð umsvif í húfi.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×