Viðskipti innlent

Nýr verðbréfasjóður orðinn 5 milljarðar kr. að stærð

Fyrir áramótin setti Eignastýring Íslandsbanka nýjan verðbréfasjóð á markað og ber hann heitið „Ríkissafn - ríkisskuldabréf og innlán". Sjóðurinn hefur fengið mjög góðar viðtökur fjárfesta og eru eignir sjóðsins nú strax orðnar um 5 milljarðar króna.

 

Í tilkynningu um málið segir að sjóðurinn fjárfesti eingöngu í skuldbréfum með ábyrgð ríkissjóðs og í innlánum fjármálastofnana. Mikil eftirspurn er nú eftir áhættulitlum fjárfestingakostum og er sjóðurinn stofnaður til að mæta þeirri eftirspurn.

Stuttur meðaltími skuldabréfa í sjóðnum þýðir að gengi sjóðsins sveiflast frekar lítið við breytingar á ávöxtunarkröfu bréfanna á markaði. Virk stýring í sjóðnum gerir það einnig að verkum að mögulegt er að nýta sveiflur á markaði til að ná fram betri ávöxtun til lengri tíma en ef eingöngu er lagt inn á sparnaðarreikninga.

Stefna sjóðsins er að fjárfesta 70% af eignum í ríkisskuldabréfum og 30% í innlánum fjármálastofnana. Með fjárfestingu í sjóðnum næst góð eignadreifing milli skuldabréfa með ábyrgð ríkissjóðs og innlána fjármálastofnana.

Sjóðurinn hentar bæði einstaklingum sem vilja ávaxta peninga til eins árs eða lengur sem og fagfjárfestum. Hægt er að fjárfesta með stökum kaupum í sjóðnum og einnig er hægt að skrá sig í reglulega áskrift.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×