Viðskipti innlent

Lítilsháttar aukning umsvifa á húsnæðismarkaði

Umsvif á húsnæðismarkaði jukust lítillega í febrúar frá fyrri mánuði en samtals voru gerðir 175 kaupsamningar um húsnæði í febrúar samanborið við 117 samninga í janúar.

Greining Íslandsbanka fjallar um málið í Morgunkorni sínu. Þar segir að engu að síður séu umsvifin enn afar lítil miðað við það sem áður var. Í febrúar fyrir ári síðan voru til að mynda samningarnir alls 425 talsins. Kaupsamningum hefur því fækkað um 70% á milli ára.

Í febrúar fyrir ári síðan þóttu umsvifin á húsnæðismarkaði þó vera dauf enda hafði þá þegar viðsnúningur hafist á íbúðamarkaði sem kom fram í minni veltu og þá tók að hægja á þeim miklu verðhækkunum sem einkennt höfðu húsnæðismarkaðinn allt frá árinu 2004.

Í febrúar árið 2007 voru gerðir 720 kaupsamningar um húsnæði og hefur kaupsamningum í febrúar nú í ár því fækkað um 85% sé miðað við sama mánuð fyrir tveimur árum síðan. Að meðaltali voru gerðir 34 samningar í viku í febrúar og nam veltan að meðaltali 900 milljónum kr. sem samsvarar því að hver samningur hafi að meðaltali verið að upphæð 30 milljónir kr.

Samkvæmt mælingum Hagstofunnar lækkaði íbúðaverð á landinu öllu um 3% í febrúar frá fyrri mánuði. Húsnæðisverð hefur nú lækkað um 6,2% að nafnverði undanfarna 12 mánuði sem samsvarar því að raunverð húsnæðis hafi á sama tíma lækkað um rúmlega 20%.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×