Viðskipti innlent

Mosaic Fashions komið í greiðslustöðvun

Búið er að setja Mosaic Fashions í greiðslustöðvun og hefur stærstur hluti félagsins verið seldur Kaupþingi og stjórnendum Mosaic.

Mosiac verslanirnar ásamt Warehouse, Oasis, Coast, Karen Millen og Anoushka G verða núna starfræktar af nýju eignarhaldsfélagi sem kallast Aurora Fashions, eftir því sem fram kemur á vef Retail Week.

Þessi sala tryggir framtíð þessara vörumerkja og tryggir að framhald verður á fjármögnun þeirra. Þessi endurskipulagning þýðir að 8700 manns geta haldið störfum hjá Aurora Fashions," segir Phil Bowers, skiptastjóri á vegum Deloitte. Skiptastjórar munu halda áfram viðskiptum með Principles og Shoe Studio, en viðræður eru í gangi um kaupendur að báðum þessum verslunum.

„Við erum mjög ánægð með að framtíð bestu tískuvöruverslana á Bretlandi hafi verið tryggð og að við getum áfram byggt á því frábæra orðspori sem vörumerki okkar hafa á meðal viðskiptavina okkar," segir Dereck Lovelock, framkvæmdastjóri Aurora. „Við hlökkum mjög mikið til þess að eiga samstarf við Kaupþing og einnig að binda endi á ákveðinn kafla í sögunni sem hefur verið okkur mjög erfiður," bætti Lovelock við.

Mosaic Fashions var að 49% hluta í eigu Baugs, en Kaupþing mun eignast 90% hlut í félaginu og stjórnendur Mosaic munu eignast um 5-10% samkvæmt frétt Sunday Times sem birtist í morgun. Skilanefnd Kaupþings vonast til þess að með breytingum á rekstrarfyrirkomulaginu verði hægt að hámarka verðmæti félagsins til langtíma litið í stað þess að það verði selt á brunaútsölu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×