Innlent

Víðtækt samkomulag á vinnumarkaði

Heimir Már Pétursson skrifar

Stöðugleikasáttmáli aðila vinnumarkaðrins og ríkisstjórnarinnar nær til 150 þúsund manna á launamarkaði og er ætlað að vera grunnur að endurreisn íslensks atvinnulífs. Laun þeirra sem eru á taxtalaunum hækka um mánaðamótin en aðrir fá ekki launahækkun fyrr en í nóvember. Skattar verða hækkaðir um tugi milljarða og enn hærri fjárhæðir skornar niður.

 

Samkomulag það sem undirritað var í Þjóðmenningarhúsinu í dag er eitt það víðtækasta sem gert hefur verið á Íslandi og nær til stjórnvalda, Alþýðusambandins, Bandalags háskólamanna, BSRB, Kennarasambands Íslands, Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja, Samtaka atvinnulífsins og sambands íslenskra sveitarfélaga. Sameiginlega stefna þessir aðilar að samstilltum aðgerðum sem miða að því að endurreisa íslenskt efnahagslíf.

 

Ein meginforsenda stöðugleikasáttarinnar er að tryggja frið á vinnumarkaði og því var byrjað á að undirrita samkomulag um framlengingu kjarasamninga á almennum markaði og að samningar opinberra starfsmanna taki mið af þeim samningum. Laun fólks á almennum vinnumarkaði sem eingöngu frá greitt samkvæmt töxtum, hækka um 6.750 krónur og hjá iðnaðarmönnum og öðrum sambærilegum stéttum um 8.750 krónur hinn 1. júlí og svo aftur um sömu upphæð hinn 1. nóvember. Aðrir fá ekki launahækkanir fyrr en í nóvember og þá upp á 3,5 prósent.

 

Vilhjálmur Egilsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins sagði þetta ekki sáttmála um stöðnun heldur framfarir. Hann þakkaði Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra fyrir ódrepandi áhuga hennar á málinu. Undir þetta tók Gylfi Arnbjörnsson forseti Alþýðusambandsins og sagði Jóhönnu og Steingrím J. Sigfússon fjármálaráðherra eiga heiður skilinn fyrir aðgöngu þeirra að sáttmálanum. Mikilvægt væri að allir aðilar í samfélaginu snéru nú bökum saman við endurreisn efnahagslífsins. En minnstu munaði að uuúr slitnaði í gær, vegna ólíkra skoðana samtaka opinberra starfsmanna og aðila vinnumarkaðarins á því hversu hátt hlutfall í aðgerðum ríkisstjórnarinnar til að stoppa í fjárlagagatið skuli vera í formi skattahækkana.

 

Á næstu þremur árum er stefnt að því að auka tekjur og eða skera niður upp á 128 milljarða króna, þar af verða skattar hækkaðir um 58 milljarða og niðurskurður og sparnaður á að ná 70 milljörðum. Stærsti liðurinn í útgjöldum ríkisins er launakostnaður. Forsætisráðherra sagði að varla yrði hjá því komist að einhverjar uppsagnir ættu sér stað hjá hinu opinbera, en í sáttmálanum væru þó ákveðnar varnir gagnvart velferðarkerfinu séu innbyggðar í sáttmálann.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×