Viðskipti innlent

Gætu tapað hátt í sjö milljörðum á HS hlut

Andri Ólafsson skrifar

Orkuveita Reykjavíkur gæti tapað hátt í sjö milljörðum króna vegna kaupa sinna á hlut í Hitaveitu Suðurnesja. Hluturinn verður varla seldur nema á tombóluverði.

Málið snýst um 15% hlut í Hitaveitu Suðurnesja sem var í eigu Hafnarfjarðarbæjar. Orkuveita Reykjavíkur keypti hlutinn á sjö milljarða árið 2007. Skömmu síðar úrskurðaði Samkeppniseftirlitið að Orkuveitan mætti ekki eiga þennan hlut. Það væri brot á samkeppnislögum. Orkuveitan vildi þá rifta kaupsamningnum en Hafnarfjarbær neitaði.

Málið fór þá fyrir dómstóla en Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurðaði nú fyrir skömmu að kaupin skildu standa, og Orkuveitan þyrfti þar að auki að greiða tvo milljarða í dráttarvexti. Hluturinn hefur því kostað Orkuveituna samtals 9 milljarða.

En þar sem samkeppniseftirlitið hefur úsrkurðað að Orkuveitan megi ekki eiga hlutinn og hún þurfi að selja hann skulum við reyna að átta okkur á því hvers virði þessi hlutur er í dag.

Setjum dæmið upp í sömu formúlu og bankarnir nota þegar þeir verðmeta fyrirtæki. Tökum hagnað félagsins fyrir skatta og margföldum með 15. Drögum svo frá skuldir.

Samkvæmt þessu er heildarverðmæti Hitaveitunnar 12 milljarðar. Hluturinn sem þessi frétt snýst um er ekki nema um 15% eða 1,8 milljarður af heildarvirði.

Þar að auki er er venjan að kaupendur að svona litlum hlut fái svokallaðan minnihlutaafslátt en hann er venjulega um 33%

Eftir standa 1,26 milljarðar.

Það er því ekki að undra að Orkuveitan hefur áfrýjað til Hæstarétar því það yrði blóðugt fyrir fyrirtækið að punga út rúmum níu milljörðum fyrir hlut sem er í rauninni ekki nema rétt rúmlega eins milljarðs króna virði nú.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×