Viðskipti innlent

90 milljarða krafa í Milestone

Guðný Helga Herbertsdóttir. skrifar

Kröfur á Milestone nema um níutíu milljörðum króna. Kröfuhafar þurfa að afskrifa tæpa áttatíu og fimm milljarða ef nauðasamningar verða samþykktir.

Þann 24. júní síðastliðinn veitti héraðsdómur Reykjavíkur Milestone heimild til að leita nauðasamninga við lánardrottna sína. Hálfum mánuði síðar gerði embætti sérstaks saksóknara húsleit í höfuðstöðvum Milestone, dótturfélagi þess Sjóvá, og á heimilum allra stjórnarmanna. Þeirra á meðal voru bæði Karl og Steingrímur Wernerssynir, aðaleigendur Milestone.

Rannsóknin snýr að meintu stórfelldu fjármálamisferli sem tengist starfsemi Milestone og fjárfestingarstarfsemi Sjóvár, meðal annars að meintri misnotkun á bótasjóði tryggingarfélagsins.

Daginn eftir að fréttir bárust af húsleitinni tilkynnti fjármálaráðherra að ríkissjóður hefði keypt 73% hlut í Sjóvá í gegnum dótturfélag Glitnis. Fyrir hlutinn greiddi ríkið 11,6 milljarða króna.

Samkvæmt heimildum fréttastofu nema kröfur í Milestone 90 milljörðum. Fundur verður haldinn með kröfuhöfum annan september næstkomandi þar sem nauðasamningar verða bornir undir þá.

Samkvæmt þeim mun kröfuhöfum verða boðið að fá 6% af kröfum sínum greiddar í formi hlutafés auk þess sem allir kröfuhafar fá að hámarki eina milljón greidda út. Milljónin mun verða dregin frá 6 prósentunum.

Kröfur í Milestone eru á sjötta tug. Glitnir er langstærsti kröfuhafinn en Kaupþing, Landsbankinn, Byr, MP banki og Straumur eiga einnig kröfur. Þá eiga fimm lífeyrissjóðir kröfur á félagið. Þeir eru LSR, Almenni lífeyrissjóðurinn, Sameinaði lífeyrissjóðurinn, Lífeyrissjóður verkfræðinga og Skjöldur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×