Viðskipti innlent

Neytendur svartsýnir í árslok

Mynd/Anton Brink

Íslenskir neytendur eru langt frá því að vera bjartsýnir á horfur í efnahags- og atvinnumálum nú í árslok samkvæmt Væntingavísitölu Gallup sem birt var í hádeginu. Annan mánuðinn í röð lækkar vísitalan sem að mati Greiningar Íslandsbanka bendir til þess að svartsýnin í garð efnahags- og atvinnuástandsins sé að aukast og ráði ríkjum á meðal íslenskra neytenda um þessar mundir. Í Morgunkorni bankans kemur fram að þetta er svipuð þróun og annars staðar.

„Þessi niðurstaða kemur eflaust fáum á óvart enda mjög erfitt ár að baki í efnahagslegu tilliti. Væntingavísitalan mælist nú í desembermánuði 34 stig og lækkar um rúm 10 stig milli mánaða," segir í Morgunkorni Íslandsbanka.

Þar segir jafnfram að þrátt fyrir þessa miklu lækkun mælist gildi vísitölunnar nú nokkuð hærra en á sama tíma fyrir ári og er jafnframt svipað og það hefur verið að jafnaði frá hruni bankanna. Í desember í fyrra mældist vísitalan 25,3 stig og frá hruni bankanna hefur hún að meðaltali verið um 33 stig.

Þá eru allar undirvísitölur á niðurleið. „Allar undirvísitölur Væntingavísitölunnar lækkuðu á milli nóvember og desember sem bendir til þess að væntingar neytenda til núverandi ástands í efnahags og atvinnumálum jafnt og ástandsins eftir sex mánuði séu minni nú en fyrir mánuði síðan."

Svipuð þróun og víða erlendis

Í Morgunkorninu kemur jafnframt fram að þetta sé svipuð þróun og annars staðar. „Það eru ekki einvörðungu íslenskir neytendur sem hafa verið svartsýnir frá því að hin alþjóðlega fjármálakreppa skall á enda hefur hún vart látið nokkurn neytanda ósnertan."

Þannig hafi bandarískan væntingavísitalan náð sínu lægsta gildi í 28 ár í febrúar síðastliðnum og mældist hún þá 25,3 stig. Á undanförnum mánuðum hefur hún verið að sveiflast í kringum 50 stig. Því sé ljóst að þó dregið hafi úr svartsýni á meðal bandarískra neytenda þá eigi þeir enn langt í land að teljast bjartsýnir. Svipaða sögu sé að segja um þróunina á evrusvæðinu. Þar hafi væntingar neytenda náði lágmarki í mars síðastliðnum en hafa síðan þá aukist nokkuð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×