Viðskipti innlent

Ný lög myndu gera fjármagnsflutningara erfiðari

Erfiðara verður að svíkja undan skatti með því að flytja fjármagn til skattaparadísa ef nýtt frumvarp sem nú er í smíðum nær fram að ganga. Gera má ráð fyrir að íslenska ríkið verði af að minnsta kosti þremur milljörðum króna árlega vegna skattsvika af þessu tagi.

Fjöldinn allur af íslenskum félögum hafa verið skráð í skattaparadísum og hefur fólk þannig getað sniðgengið skattalög. Þá bendir flest til þess að íslenska ríkið hafi orðið af umtalsverðum skatttekjum vegna þessa. Nú er í smíðum frumvarp í fjármálaráðuneytinu með aðkomu ríkisskattstjóra sem mun styrkja skattaframkvæmd sérstaklega með tilliti til skattsvika í tengslum við fjármagnsflutninga til skattaparadísa. Frumvarpið gengur m.a. út á að innlendum fjármálafyrirtækjum verði gert skylt að upplýsa skattayfirvöld um viðskipti íslenskra skattborgara við útibú og dótturfélög þeirra erlendis. Þá er einnig gert ráð fyrir svokallaðri cfc löggjöf sem er við lýði í öllum nágrannalöndum okkar. Með henni verður aðilum sem reka félög í skattaparadísum gert skylt að telja fram eignir og tekjur þeirra félaga. Indriði H. Þorláksson, ráðuneytisstjóri fjármálaráðuneytisins og fyrrum ríkisskattstjóri segir að þrátt fyrir að í frumvarpinu felist miklar breytingar þá verði ekki ómögulegt að svíkja undan skatti.

Í frumvarpinu er ekki gert ráð fyrir breytingum á viðurlögum skattalaga en þau geta verið allt frá sektum að fangelsisvist. Indriði segir stefnt að því að frumvarpið verði lagt fram í lok vikunnar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×