Viðskipti innlent

Mátu lántakendur áhættusama en lánuðu þeim samt milljarða

Helga Arnardóttir. skrifar

Tveir af stærstu hluthöfum og viðskiptavinum Kaupþings voru taldir áhættusamir lántakendur í lánayfirliti bankans vegna þess hversu stór hluti eigna þeirra var í bankanum sjálfum. Þeir keyptu hlutina fyrir lánsfé frá Kaupþingi og skulduðu þar alls 240 milljarða.

Tveir stærstu viðskiptavinir Kaupþings í Lúxemburg, Kevin G. Stanford sem var viðskiptafélagi Baugs og Skúli Þorvaldsson, skulduðu bankanum rúma 240 milljarða króna þann 25. september síðastliðinn. Ekki verður séð af lánayfirliti Kaupþings sem lekið var á netið að persónuleg áhætta þessara manna hafi verið mikil.

Skúli skuldaði 140 milljarða og Kevin Stanford rúma 100.

Skúli átti hluti í Kaupþingi, Existu og í norræna tryggingarisanum Sampo sem og skuldabréf sem voru gefin út á Kaupþing. Verðmæti skuldabréfanna voru þrettán milljarðar króna. Exista var stærsti hluthafinn í Kaupþingi og í Sampó.

Í lánayfirlitinu kemur fram að Kaupþing telji lán til Skúla vera áhættusöm því afkoma hans hafi verið of tengd gengi Kaupþings og hafi verið langstærsti hlutinn í eignasafni hans. Hafa skal í huga að Skúli fjármagnaði kaupin á bréfum í Kaupþingi og Existu með láni frá Kaupþingi sjálfu.

Kevin Stanford hins vegar var fjórði stærsti hluthafi Kaupþings þegar lánayfirlitið var birt skuldaði bankanum um 100 milljarða. Í yfirlitinu kemur fram að helsta áhættan vegna Stanford sé sú að 45 prósent af eignasafni hans sé hlutur í Kaupþingi, hlutur sem einnig var fjármagnaður með lánum frá bankanum sjálfum. Samkvæmt yfirlitinu lánaði Kaupþing Stanford 18 milljarða til að fjármagna kaup á hlutum í Kaupþingi á árinu 2008.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×