Viðskipti innlent

Byr kominn með sjálfstæða erlenda greiðslumiðlun

Nú hefur Byr opnað reikninga erlendis í öllum helstu myntum, það er evrum, pundum, dollurum, norskum, sænskum og dönskum krónum, svissneskum frönkum og jenum, og er því kominn með sjálfstæða greiðslumiðlun fyrir erlend viðskipti.

Í tilkynningu segir að Byr hafi um skeið haft með höndum erlenda greiðslumiðlun fyrir sparisjóðina og hafa greiðslur verið sendar í gegnum reikninga Seðlabanka Íslands.

Eftir fall Sparisjóðabankans tók Byr að sér erlenda og innlenda greiðslumiðlun fyrir sig og aðra sparisjóði í landinu í gegnum reikninga Seðlabanka Íslands. Sú lausn var aðeins hugsuð sem tímabundin því markmiðið var ávallt að gera Byr og sparisjóðina sjálfstæða er kæmi að erlendum viðskiptum.

„Sparisjóðirnir á Íslandi hafa frá upphafi haft með sér náið samstarf, m.a. í fræðslumálum starfsfólks og tæknimálum og hefur það styrkt samkeppnisstöðu þeirra gagnvart öðrum fjármálafyrirtækjum. Með þessari breytingu er Byr sparisjóður að færa sig enn nær auknu samstarfi og liðsheild sparisjóðanna í landinu. Vonast Byr að geta styrkt tengsl sín enn frekar við sparisjóðina og áfram verið þeirra helsti bakhjarl og samstarfsaðili," segir í tilkynningunni.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×