Viðskipti innlent

Skuldatryggingaálag Íslands hátt en fer lækkandi

Skuldatryggingaálag til fimm ára fyrir íslenska ríkið, sem við hrun bankanna í fyrra fór úr 4% í nærri 15% stóð í nærri 11% í mars síðastliðnum. Nú er það komið í 8,5%.

Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að lækkunin sé sem sagt umtalsverð en hún hefur verið ívið meiri hjá öðrum ríkum sem standa illa á þennan mælikvarða. Þannig er skuldatryggingaálag íslenska ríkisins enn afar hátt og er nú ekki einungis það hæsta sem finnst meðal iðnvæddra ríkja heldur einnig meðal nýmarkaðsríkja. Undanfarið hefur íslenska hagkerfið frekar verið sett í flokk með þeim síðarnefndu hvað skuldatryggingaálagið varðar.

Þannig er skuldatryggingaálagið meðal iðnríkjanna hæst hjá Írlandi, en þar stendur fimm ára skuldatryggingaálagið nú í tæplega 2,5% eftir að hafa farið í 4% í apríl síðastliðnum. Meðal nýmarkaðsríkja er það hæst í Lettlandi 7,5% og hefur lækkað úr því að vera í tæplega 12% í apríl síðastliðnum. Einna mest hefur skuldatryggingaálagið lækkað hjá Kasakstan en það hefur á þessum tíma farið úr nærri 16% í 7,3%.

Greiningin segir að minni áhættufælni á alþjóðlegum fjármálamarkaði er ein af forsendum fyrir afnámi gjaldeyrishafta. Minni áhættufælni heldur fjárfestum frekar inni í hávaxtamyntum líkt og krónunni og er krónan þar með líklegri til að halda sjó við fleytingu í slíku umhverfi en ef áhættufælnin væri meiri.

Minni áhættufælni á alþjóðavísu gerir það einnig að verkum að lægri mun innlendra og erlendra vaxta þarf til að halda sama styrk krónunnar. Minni áhættufælni er því ein af forsendum fyrir frekari lækkun stýrivaxta Seðlabankans. Minni áhættufælni alþjóðlega er auk þess forsenda fyrir þeim efnahagsbata á alþjóðavísu sem íslenskur hagvöxtur hvílir á. Þróunin á alþjóðlegum fjármálamörkuðum hefur því verið afar jákvæð hvað þetta varðar fyrir íslenskt hagkerfi.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×