Erlent

Flestir flugmenn sofna undir stýri

Óli Tynes skrifar

Flugáhafnir í tuttugu og tveim Evrópulöndum hefja í dag herferð gegn nýjum vinnutímareglum sem Evrópusambandið setti í júní síðastliðnum.

Samkvæmt þeim skal vinnutími flugliða vera sextíu klukkustundir á viku sem getur leitt til þess að þeir þurfi að vera allt að fjórtán klukkustundir samfellt á vakt.

Þetta er mikil aukning í mörgum landanna. Í Danmörku var vinnuskyldan til dæmis fjörutíu og fimm klukkustundir.

Flugliðarnir halda því fram að þetta stórskaðí flugöryggi þar sem áhafnirnar geti orðið örþreyttar ef þær lendi í langri törn.

Mogens Holgaard formaður félags danskra atvinnuflugmanna bendir á sérfræðirannsókn sem birt var í september á síðasta ári.

Fimmtíu fórust í Buffalo

Jafnvel þá hafi verið mörg dæmi um of langan vinnudag og flugliðar í sjö af hverjum tíu áhöfnum hafi viðurkennt að á þá hafi sigið svefn meðan á flugi stóð.

Holgaard bendir á flugslysið sem varð í Buffalo í Bandaríkjunum í febrúar síðastliðnum. Þá fórust fimmtíu manns í lendingu. Rannsókn á slysinu hafi leitt í ljós að flugmennirnir hafi gert mistök vegna þreytu.

Það slys hafi leitt til þess að verið sé að endurskoða reglur um vinnutíma þar í landi.

Vekjaraklukkur í pósti

Til þess að vekja athygli á herferð sinni hafa samtök danskra flugliða sent öllum þingmönnum landsins vekjaraklukku í pósti.

Klukkunni fylgja þau skilaboð að þingmennirnir ættu að taka klukkuna með sér og lána áhöfninni, næst þegar þeir fara í flug.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×