Skoðun

Leiðin til framtíðar

Í umræðunni hafa komið fram málsmetandi einstaklingar sem halda því fram að þjóðinni beri að taka á sig drápsklyfjar skulda. Að aðrar þjóðir sem hafi lent í sambærilegum erfiðleikum og Íslendingar nú hafi tekist á við þá af þjóðarstolti og mætt heiminum sem heiðarlegir borgunarmenn.

Þessar þjóðir séu fyrirmyndir. Þær beri höfuðið hátt. Þetta sé leiðin áfram.

Ég er sammála þeim sem halda því fram að við eigum að bera höfuðið hátt. Það gerðum við í þorskastríðinu og höfum gert hingað til sem sjálfstæð fullvalda þjóð. Ég er einnig sammála þeim sem segja að við eigum að borga skuldir okkar. Það vefst ekki fyrir mér.

Vandinn er hins vegar sá að Íslendingar hafa aldrei í Icesave-deilunni mætt öðrum þjóðum uppréttir. Við höfum látið Hollendinga og Breta beygja okkur frá upphafi og því miður virðist svo vera enn. Þá hafna ég því algerlega sem Íslendingur að þjóðinni sé gert að greiða umfram það sem hún er lagalega skuldbundin til að greiða.

Ég hef ekki heyrt því haldið fram, í hinni málefnalegu umræðu, að við ætlum ekki að standa við skuldbindingar okkar. Eins og Stefán Már lagaprófessor og Lárus Blöndal hrl. sem og hin virta breska lögmannsstofa Mishcon De Reya hafa ítrekað bent á, þá leikur raunverulegur vafi á því hvort Íslendingar eigi að greiða þá fjárhæð sem til var í hinum íslenska innstæðutryggingasjóði eða hvort þeim beri að greiða lágmarksgreiðslu skv. tilskipun Evrópusambandsins um innistæðutryggingar eða 20.000 evrur. Uppréttur maður myndi að sjálfsögðu láta reyna á þessa lagalegu óvissu. Síðan yrði að sjálfsögðu greitt skv. niðurstöðunni.

Í annan stað má líka nefna að ef við gefum okkur að Íslendingar séu skuldbundnir til að greiða lágmarksfjárhæð tilskipunarinnar eða hinar 20.000 evrur þá hljóta þeir uppréttu að staðnæmast þar. Neita að greiða meira. Það er hins vegar ekki raunin með Icesave-samningana. Bæði Hollendingar og Bretar hafa sett sérstaka klásúlu í samningana þar sem sérstaklega er vikið að því að bæði hollenski og breski sjóðurinn njóta sama forgangsréttar og íslenski innstæðutryggingasjóðurinn.

Þetta þýðir eins og Ragnar H. Hall hrl. hefur bent á og Eiríkur Tómason lagaprófessor hefur tekið undir, að Íslendingar eru að greiða mun meira en hinar 20.000 evrur. Þvert gegn skýru ákvæði tilskipunarinnar sjálfrar. Hleypur sú fjárhæð á tugum ef ekki hundruðum milljarða íslenskra króna.

Við megum aldrei gefa eftir réttindi okkar sem fullvalda þjóð.

Þess réttar njótum við til jafns á við aðrar þjóðir Evrópu. Ef við gefum þann rétt frá okkur þá gefum við eftir sjálfsvirðingu okkar og þjóðarstolt. Það er aðeins að því gefnu að Íslendingar standi í lappirnar að þeir geti borið höfuðið hátt. Það er leiðin til framtíðar.

Höfundur er alþingismaður.






Skoðun

Sjá meira


×