Viðskipti innlent

Vilhjálmur tapaði í héraðsdómi

Vilhjálmur Bjarnason.
Vilhjálmur Bjarnason.

Vilhjálmur Bjarnason lektor tapaði í dag dómsmáli sem hann og dætur hans höfðuðu á hendur stjórnarmönnum í Straumi fjárfestingabanka. Vilhjálmur krafðist alls þrjátíu þúsund króna í bætur en hann sakaði bankann um að hafa selt bréf í bankanum á undirverði. Salan átti sér stað í ágúst 2007 en þá seldi Straumur fimm prósenta hlut til Drake Capital Management en kaupandinn var ekki gefinn upp á þeim tíma. Vilhjálmur og dætur hans áttu hlutabréf í Straumi.

Markaðsvirði hlutarins nam um 10,2 milljörðum króna, en viðskiptin fóru ekki fram á markaði heldur var hluturinn seldur til fjárfestisins í gegnum Landsbankann í Luxemburg. Vilhálmur taldi að með því að selja á undirverði hefði jafnræðisregla verið brotin og Straumur orðið af rúmum 300 milljónum króna.

Dómari felldi dóm sinn í dag og þar var bankinn sýknaður af ásökunum Vilhjálms. Málskostnaður var einnig felldur niður.

Í stjórn Straums á þessum tíma sátu þeir James Leitner, Birgir Már Ragnarsson, Björgólfur Thor Björgólfsson, Friðrik Hallbjörn Karlsson og Guðmundur Kristjánsson.

Vilhjálmur og lögfræðingur munu taka sér tíma til þess að meta hvort málinu verði áfrýjað til Hæstaréttar en í niðurstöðu dómsins segir að Vilhjálmur hafi ekki hlotið skaða af ákvörðun bankans.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×