Innlent

Breiðavíkurdrengur segir Jóhönnu sýna yndislegt fordæmi

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Georg Viðar Björnsson segir að enn sé beðið eftir niðurstöðu varðandi skaðabætur til handa Breiðavíkurdrengjunum.
Georg Viðar Björnsson segir að enn sé beðið eftir niðurstöðu varðandi skaðabætur til handa Breiðavíkurdrengjunum.
Georg Viðar Björnsson, varaformaður Breiðavíkursamtakanna, fagnar því að forsætisráðherra hafi beðið drengina sem vistaðir voru á Breiðavíkurheimilinu afsökunar á illri meðferð sem þeir sættu.

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, bað Breiðavíkurdrengi og aðra sem sætt hafa illri meðferð á heimilum ríkisins, afsökunar, fyrir hönd ríkisins, á Alþingi nú fyrir stundu. Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingar, spurði hana hvort þetta stæði til af hálfu ríkisins, og sagði Jóhanna sjálfsagt að verða við því. Þó væri ekki sjálfgefið að þeir sem bjuggu við vondar aðstæður á þessum meðferðarheimilum veittu fyrirgefninguna.

„Þetta hljómar mjög vel þó að það geti aldrei orðið neitt persónulegra en svo að Jóhanna sýnir þarna yndislegt fordæmi, að hún vill gera þetta og ganga fram fyrir þjóðina og biðjast afsökunar," segir Georg Viðar í samtali við fréttastofu. „Þetta var náttúrlega ógurlegt óréttlæti í sambandi við þessa krakka sem voru sendir þarna sem að ríkið hefði náttúrlega átt að hindra vegna þess að þetta gekk þarna á í áratugi," bætir Georg Viðar við.

Georg Viðar segir þó að Breiðavíkursamtökin vinni ennþá að því að fá greiddar skaðabætur. „Það vefst svolítið fyrir þeim hvað þeir ætla að borga. Þeir hafa verið að tala um eina milljón eða eitthvað svoleiðis og láta jafnt yfir alla ganga," segir Georg Viðar. Honum líst fremur illa á þá hugmynd því að hann hafi sjálfur verið þarna í vist í tæp fimm ár en svo séu aðrir sem hafi verið þarna í hálft ár.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×