Viðskipti innlent

Ríkið hefur greitt 90 milljónir vegna útflutnings bifreiða

Á þeim tæpu þremur mánuðum sem lög um endurgreiðslur vörugjalds og virðisaukaskatts á ökutækjum hafa verið í gildi hefur verið sótt um endurgreiðslu af 190 ökutækjum.

Af þessum 190 umsóknum hefur 19 verið hafnað, 73 umsóknir hafa verið afgreiddar og 98 bíða afgreiðslu. Í heildina hafa verið endurgreiddar tæplega 91.000.000 kr. eða að meðaltali 1.250.000 kr. á hvert ökutæki.

Í nýjasta vefriti fjármálaráðuneytisins er fjallað um málið og þar segir að óhætt sé að fullyrða að endurgreiðslur vörugjalds og virðisaukaskatts af ökutækjum sem flutt hafa verið úr landi fari hægar af stað heldur en búist var við í upphafi en þá var gert ráð fyrir að sótt yrði um endurgreiðslur af allt að 5.000 ökutækjum á gildistíma laganna.

Fjárhæð endurgreiðslu á hvert ökutæki er hins vegar að meðaltali hærri heldur en búist var við.

Færri umsóknir um endurgreiðslu vörugjalds og virðisaukaskatts af bílaleigubifreiðum hafa verið afgreiddar heldur en búist var við en nú bíða um 50 umsóknir um endurgreiðslu gjalda af bílaleigubifreiðum afgreiðslu.

Mun lægra vörugjald er greitt við innflutning bílaleigubifreiða auk þess sem eigendur bílaleigubifreiða njóta innskattsréttar og því nema endurgreiðslur vegna þeirra mun lægri fjárhæðum.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×