Viðskipti innlent

Laxeldi Silfurstjörnunnar skilar 380 milljónum í ár

Laxeldi Silfurstjörnunnar mun skila um 380 milljónum kr. í útflutningsverðmæti í ár miðað við það verð sem fæst fyrir laxinn á Evrópumarkaðinum í dag. Benedikt Kristjánsson framkvæmdastjóri Silfurstjörnunnar segir að á næsta ári muni þeir síðan auka framleiðsluna.

Í frétt á vefsíðunni e24.no segir að mjög gott verð fáist nú fyrir norskan eldislax eða tæplega 34 norskar kr. á kílóið eða hátt í 700 kr. Hefur verðið hækkað um rúm 12% frá því í síðustu viku. Í fréttinni er þetta orðað sem svo að norska laxeldið sé að upplifa gullöld mitt í fjármálakreppunni.

Benedikt segir að þeir reikni með að í ár muni þeir framleiða um 550 tonn af flökuðum laxi og miðað við fyrrgreint verð geri það um 380 milljónir kr. í verðmæti. Á næsta ári er síðan reiknað með að framleiðslan fari í 700-750 tonn í strandeldisstöð fyrirtækisins í Öxarfirði.

„Það er óhætt að segja að útlitið sé gott hvað varðar nánustu framtíð í laxeldinu," segir Benedikt sem líst mjög vel á það verð sem er í boði fyrir laxinn þessa dagana.

Það sem einkum veldur hækkandi verði á eldislaxi eru vandamál Chile-manna í sínu eldi vegna sjúkdóma. Chile hafði, þegar best lét, framleitt um 500.000 tonn af eldislaxi árlega en sú framleiðsla er mikið til í molum vegna vandmála tengdum sjúkdómum.

Talið er að Chile muni ekki ná tökum á vandamálum sínum fyrr en eftir 4-5 ár. Á meðan er lag fyrir aðra að koma sér inn á markaðinn.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×