Innlent

Vinna hefur áhrif á tíðni krabbameins

Mestar líkur á krabbameini eru meðal starfsstétta þar sem aðgengi að áfengi og tóbaki er auðvelt, líkt og hjá starfsfólki veitingahúsa. Myndin er ekki tengd fréttinni. fréttablaðið/rósa
Mestar líkur á krabbameini eru meðal starfsstétta þar sem aðgengi að áfengi og tóbaki er auðvelt, líkt og hjá starfsfólki veitingahúsa. Myndin er ekki tengd fréttinni. fréttablaðið/rósa

Minnstar líkur eru á því að bændur og garðyrkjumenn fái krabbamein, en mestar líkur á krabbameini eru meðal starfsstétta sem hafa auðvelt aðgengi að tóbaki og áfengi, eins og starfsfólk veitingastaða. Þetta eru niðurstöður umfangsmikillar rannsóknar á Norðurlöndunum á nýgengi krabbameina meðal starfsstétta.

Fylgst var með fimmtán milljónum manna á aldrinum 30 til 64 ára í Danmörku, Finnlandi, Noregi, Svíþjóð og á Íslandi. Fylgst var með hópunum í allt að 45 ár. Alls greindust 2,8 milljónir af fimmtán með krabbamein á tímabilinu. Algengustu krabbameinin voru krabbamein í blöðruhálskirtli hjá körlum og brjóstakrabbamein hjá konum. Á tímabilinu greindust tæplega 400 þúsund karlmenn með krabbamein í blöðruhálskirtli og rúmlega 370 þúsund konur með brjóstakrabbamein.

Lífshættir, menntun og aðrar aðstæður starfsstétta hafa afgerandi áhrif á krabbameinstíðnina, að því er fram kemur í rannsókninni. Vinnutengdir þættir eru líka mikil­vægir í því samhengi. Þannig eru reykinga- og áfengistengd krabbamein mjög tengd starfshópum. Starfsmönnum veitingahúsa og körlum í tóbaksiðnaði er þannig hættast við að fá lungnakrabbamein, sem og karlar í drykkjarvöruframleiðslu, farmenn og fiskimenn. Lítið var um sams konar krabbamein hjá háskólamenntuðum stéttum svo og bændum og garðyrkjumönnum. Lítið var einnig um blöðruhálskrabbamein hjá sömu stéttum, en það var algengast hjá körlum sem störfuðu á veitingahúsum. Lifrarkrabbamein var algengt hjá starfsstéttum þar sem aðgengi að áfengi var auðvelt, eins og starfsfólki veitingahúsa og fólki í drykkjarvöruframleiðslu.

Þetta er í fyrsta sinn sem Ísland tekur þátt í rannsókn af þessu tagi, en Krabbameinsskrá Íslands og Rannsóknarstofa í vinnuvernd stóðu að rannsókninni fyrir Íslands hönd. Upplýsingar úr manntali fengust frá Hagstofu Íslands og tveir íslenskir prófessorar, þær Hólmfríður Kolbrún Gunnarsdóttir og Laufey Tryggvadóttir, eru meðal höfunda rannsóknarinnar. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×