Innlent

Boða stóreignaskatt og hækkun á áfengi

Áfengi og tóbak gæti hækkað verulega í verði á næstu misserum ef áform ríkisstjórnarinnar ná fram að ganga.
Áfengi og tóbak gæti hækkað verulega í verði á næstu misserum ef áform ríkisstjórnarinnar ná fram að ganga.

Fjármálaráðherra boðar 30 til 40 prósenta hækkun á áfengis- og tóbaksgjaldi á næstu mánuðum í nýrri skýrslu um jöfnuð í ríkisfjármálum sem gerð var opinber í gær. Áætlað er að slíkar hækkanir gætu skilað ríkinu fjórum milljörðum í auknar tekjur. Hægt væri að hækka gjöldin í áföngum út næsta ár.

Skýrslan var lögð fyrir Alþingi í gær en ekki rædd. Í henni er farið yfir nauðsynlegar aðgerðir til að brúa fjárlagagatið - en þær skiptast í tekjuöflunarleiðir, aðallega skattahækkanir, og leiðir til niður­­skurðar.

Viðurkennt er í skýrslunni að „jafnvel þótt leitast verði við að hlífa félagslega og samfélagslega viðkvæmum sviðum og vinnuaflsfrekri starfsemi [náist] ekki mikill árangur án þess að stig félags­legrar þjónustu svo sem í tryggingamálum og heilbrigðismálum lækki umtalsvert, dregið verði úr menntunarframboði og starfsfólki á vegum ríkisins fækki.“

Meðal skattahækkana sem boðaðar eru í skýrslunni eru skattur á komufarþega og hótelsgistingu, sem kynnu að afla ríkissjóði um 700 milljóna á ári, frekari hækkun á bensín- og olíugjaldi og sérstakt kolefnisgjald sem lagt yrði á alla vöru og hráefnisnotkun sem veldur kolefnislosun, meðal annars álver.

Kolefnisgjald er talið geta skilað allt að 7,5 milljörðum í ríkiskassann árlega. Tekið er fram í skýrslunni að slíkt gjald kynni hins vegar hugsanlega að hafa áhrif á þá sem hug hafa á að reka álverksmiðjur hér á landi.

Einnig er tæpt á því að æskilegt gæti verið að hækka tekjuskatt frá og með næstu áramótum, en slík hækkun gæti aflað ríkinu 30 til 40 milljarða á ári. Þá er það nefnt sem möguleg leið að hækka lægra skattþrep virðisaukaskatts úr sjö prósentum í tólf, sem myndi auka tekjur ríkissjóðs um sjö milljarða, eða jafnvel í fjórtán prósent, sem myndi skila tíu milljörðum í auknar tekjur.

Enn fremur er tekið fram að til álita komi að huga að breytingum á sköttum eins og eignaskatti og erfðafjárskatti. Í tilviki eignaskatta yrði eingöngu um að ræða skatt á mjög mikla eign, það er eins konar stóreignaskatt á tekjugefandi eignir.

Eignaskattur var afnuminn árið 2006 og hafa hugmyndir um endur­upptöku hans til þessa vakið hörð viðbrögð samtaka eldri borgara, sem telja slíkan skatt helst bitna á eldra fólki. „Rétt er að taka fram að engar mótaðar hugmyndir liggja fyrir um breytingar á þessum tveimur skattstofnum,“ segir í skýrslunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×