Viðskipti innlent

Höfða mál vegna peningamarkaðssjóða

Á annan tug manna hefur höfðað mál á hendur Landsbanka Íslands vegna rýrnun peningamarkaðsjóðsins í aðdraganda bankahrunsins. Um 56 milljarðar króna voru leystir út úr honum á dagana fyrir lokun.

Til viðbótar við þá sem þegar hafa stefnt bankanum, eru um um tíu til fimmtán manns sem bíða eftir frekari upplýsingum um fjárfestingar peningamarksaðssjóðs Landsbankans, eignasamsetningu, tryggingar á bak við skuldabréfin og önnur atriði, til að mynda verðamat á bréfum sem var skert um 35 prósent við slit sjóðsins. Sjóðurinn lækkaði úr tæpum 160 milljörðum í 102 milljarða síðustu vikuna fyrir bankahrunið. Orðrómur er um að völdum viðskiptavinum bankans, starfsmönnum og öðrum tengdum aðilum, hafi verið bent á að leysa út bréf sín í peningamarkaðssjóðnum síðustu dagana fyrir hrun.

Jóhann H. Hafstein héraðsdómslögmaður segist hafa heyrt þann orðróm. Hann hafi þó engar áreiðanlegar heimildir fyrir öðru en því að það hafi verið mikið áhlaup á sjóðinn.57 milljarðar hafi verið leystir út síðust vikuna fyrir lokun.

Þessar tölur hafa fengist staðfestar í Nýja Landsbankanum, en jafnframt var þess getið að fólk hefði einnig lagt inn í sjóðinn síðustu daga fyrir fall bankans, fólk sem átti háar innistæður á venjulegum innlánsreikningum og vildi dreifa fjármagni sínu. Í síðustu viku var kveðinn upp úrskurður í Héraðsdómi Reykjavíkur um að fyrrverandi framkvæmdastjóri og stjórnarmaður Landsvaka, sem annaðist reksturs peningamarkaðssjóðsins, væri skylt að mæta fyrir Héraðsdóm til að veita upplýsingar, sem fjárfestar höfðu engan aðgang haft að. Væntanlega munu öll kurl þó ekki koma til grafar fyrr en fjallað verður um málið fyrir dómi. Tekið skal fram að Fjármálaeftirlitið skoðar einnig rekstur allra peningamarkaðssjóða bankanna.

---------------------------------






Fleiri fréttir

Sjá meira


×