Viðskipti innlent

Hagvöxtur þarf að vera 4,5% til að fjölga störfum um 20 þúsund

Það þarf 4,5% hagvöxt á ári allt til ársins 2015 til að fjölga störfum um 20 þúsund.
Það þarf 4,5% hagvöxt á ári allt til ársins 2015 til að fjölga störfum um 20 þúsund.
Líklegt er að landsframleiðsla þurfi að vaxa um tæpan fjórðung fram til ársins 2015 til þess að störfum verið fjölgað um 20 þúsund. Þetta kemur fram í nýrri frétt á vef Samtaka atvinnulífsins en tölfræði frá árunum 1963 - 2008 sýnir að hverri prósentu í hagvexti fylgdi fjölgun starfa um hálft prósent á þeim tíma.

Samtök atvinnulífsins segja að að því gefnu að landsframleiðslan minnki um 10% á þessu ári og að enginn hagvöxtur verði á næsta ári þá þurfi hagvöxtur að vera 4,5% árlega að jafnaði á árunum 2011-2015 svo þetta markmið náist. Full atvinna náist ekki með öðrum hætti að því gefnu að jafnvægi verði í búferlaflutningum til og frá landinu á komandi árum.

„Ársstörfum fjölgaði um 90% á tímabilinu 1963 til 1997 eða um rúmlega 2% á ári að jafnaði. Á sama tímabili var hagvöxtur að jafnaði 4% árlega þannig að hver prósenta í hagvexti skapaði grundvöll fyrir 0,5% fjölgun starfa. Hinn mikli hagvöxtur skapaði grundvöll bæði fyrir mikilli fjölgun starfa umfram fólksfjölgun og stórbættum lífskjörum.

Starfandi fólki fjölgaði einnig um rúm 2% á ári að jafnaði á tímabilinu 1997 til 2008 og hagvöxtur var rúmlega 4% árlega þannig að einnig á þessu tímabili fylgdi hverri prósentu í hagvexti 0,5% fjölgun starfa. Fækkun starfa á þessu ári er þó mun meiri en fall landsframleiðslu gefur tilefni til samkvæmt þessu sambandi. Það skýrist að miklu leyti af þeim óvenjulegu aðstæðum sem ríkjandi eru í kjölfar bankahrunsins og mikilli fækkun starfa í byggingariðnaði í kjölfar ofþenslunnar á þeim markaði á undanförnum árum," segir í frétt Samtaka atvinnulífsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×