Viðskipti innlent

Skráð atvinnuleysi í febrúar var 8,2%

Skráð atvinnuleysi í febrúar 2009 var 8,2% eða að meðaltali 13.276 manns og eykst atvinnuleysi um 27% að meðaltali frá janúar eða um 2.820 manns. Á sama tíma á árinu 2008 var atvinnuleysi 1%, eða 1.631 manns.

Í frétt um málið á vefsíðu Vinnumálastofnunnar segir að atvinnuleysi sé nú mest á Suðurnesjum 13,5% en minnst á Vestfjörðum 1,8%. Atvinnuleysi eykst um 31% á höfuðborgarsvæðinu en um 20% á landsbyggðinni. Atvinnuleysi eykst um 28% meðal karla og 25% meðal kvenna. Atvinnuleysið er 9,4% meðal karla og 6,6% meðal kvenna.

Þeir sem verið hafa á skrá lengur en 6 mánuði voru 1.205 í lok febrúar en 1.023 í lok janúar. Alls höfðu 296 verið atvinnulausir lengur en eitt ár í febrúar en 273 í lok janúar. Þegar atvinnuleysi eykst eins mikið og nú, er mesta aukningin meðal þeirra sem hafa verið atvinnulausir í nokkrar vikur og mánuði (skammtímaatvinnuleysi).

Atvinnulausum 16-24 ára hefur fjölgað úr 2.837 í lok janúar í 3.308 í lok febrúar og eru þeir um 21% allra atvinnulausra í febrúar en voru um 23% í lok janúar.

Oft er frekar lítil breyting á atvinnuleysi frá febrúar til mars. Í fyrra var atvinnuleysið svipað í báðum mánuðum og mældist 1%. Nú er hins vegar mun meiri samdráttur í hagkerfinu og má gera ráð fyrir aukningu milli mánaða. Atvinnulausum í lok febrúar fjölgaði frá lokum janúar um 3.078 en um 13.689 frá sama tíma árið 2008.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×