Viðskipti innlent

Langtímafjármögnun Marel upp á 30 milljarða tryggð

Marel hefur tryggt langtímafjármögnun sína upp á 171 milljón evra eða tæpa 30 milljarða kr. að því er segir í tilkynningu frá félaginu. Meðallíftími skulda er rúmlega fjögur ár og eru gjalddagar á tímabilinu nóvember 2011 til maí 2017.

Þá hefur Marel endurgreitt að fullu skuldabréfaflokk (MARL 09 1) sem skráður er í Kauphöllinni með gjalddaga í dag, 20. maí 2009.

Nýr skuldabréfaflokkur að upphæð 3,6 milljarðar króna, sem samsvarar 21 milljónum evra, hefur verið gefinn út með gjalddaga í nóvember 2011.

Íslandsbanki, NBI og Nýja-Kaupþing hafa veitt sambankalán að upphæð 116 milljónum evra.

Allir afleiðusamningar hafa verið gerðir upp að fullu og Glitnir hefur veitt lán til fimm ára að upphæð 34 milljónir evra.

„Við erum þakklát því trausti sem lánadrottnar okkar hafa sýnt okkur. Þeir deila þeirri skoðun okkar að langtímahorfur í rekstri séu góðar," segir Theo Hoen, forstjóri Marel. „Eftir að hafa tryggt stöðuleika í fjármögnun getum við nú einbeitt okkur að daglegum rekstri sem mun gera okkur kleift að ná markmiðum okkar um rekstrarhagnað uppá 10-12% af sölu frá og með árinu 2010."

Árni Oddur Þórðarson, stjórnarformaður Marel segir að íslensku bankarnir sýndu styrk sinn með því að taka höndum saman um að tryggja langtímafjármögnun Marel Food Systems.

„Við erum jafnframt mjög ánægð með það traust sem lífeyrissjóðir og aðrir fagfjárfestar sem tóku þátt í skuldabréfaútboðinu félagsins hafa sýnt okkur," segir Árni. Að auki veitti hópur banka í Vestur Evrópu undir forystu Rabobank okkur langtímalán árið 2008 með gjalddaga árin 2016 og 2017."










Fleiri fréttir

Sjá meira


×