Skoðun

Dýrmætur mannauður

Ég hef ákveðið að bjóða fram mína krafta og tekið fimmta sæti á lista framsóknarmanna í Reykjavík-norður. Ég hef alla mína starfsævi unnið við hjúkrun, stjórnun og umönnun aldraðra.

Heilbrigðismál eru mér því mjög hugleikin og við framsóknarmenn viljum tryggja öllum landsmönnum möguleika á bestu heilbrigðisþjónustu sem völ er á.

Ég legg mikla áherslu á að vernda og styrkja aðgengi einstaklinga að grunnþjónustunni. Almenningur þarf að hafa gott aðgengi að heilsugæslunni, það verður að leggja höfuðáherslu á heilsuvernd og forvarnastarf því þetta skilar sér margfalt til baka til þjóðfélagsins. Ég vil standa vörð um trygga þjónustu fyrir aldraða og sjúka.

Til að þetta sé hægt þá þarf að forgangsraða og í því samhengi að líta til nágrannalanda okkar eins og t.d. Norðurlandanna og skoða með hvaða hætti málin hafa verið leyst þar. Heilsugæslan á að sjálfsögðu að vera fyrsti valkostur sjúklinga. Skoða þarf enn frekar lyfjanotkun og reyna að stýra henni á sem ódýrastan hátt. Aukin samvinna við hin Norðurlöndin er áhugaverður kostur í þessu sambandi. Sama á við um aðrar rekstrarvörur í heilbrigðisgeiranum. Ég tel að stefna skuli að byggingu hátækni-háskólasjúkrahúss sé þess nokkur kostur og skoða vandlega færar leiðir.

Læknar, hjúkrunarfræðingar og aðrir heilbrigðisstarfsmenn eru dýrmætur mannauður sem vinnur við þröng skilyrði og mikið álag alla daga og mikilvægt að missa ekki þetta vel menntaða fólk úr landi. Hlúum að þeim.

Höfundur er hjúkrunarforstjóri Eirar hjúkrunarheimilis.




Skoðun

Sjá meira


×