Viðskipti innlent

Spáir 11,7% verðbólgu í apríl

Greining Íslandsbanka telur að vísitala neysluverðs (VNV) muni hækka um 0,3% í apríl. Ef spáin gengur eftir mun 12 mánaða verðbólga lækka úr 15,2% í 11,7% og verður hún þá svipuð og fyrir ári síðan.

Í Morgunkorni greiningarinnar segir að í aprílmælingu VNV munu vegast á áhrif af nýlegri gengislækkun krónu ásamt síðustu dreggjum gengishrunsins í fyrrahaust annars vegar, og áhrif lækkunar húsnæðisverðs hins vegar.

Þannig gerir greiningin við ráð fyrir að verðlag á ferðum og flutningum hækki um ríflega 2% á milli mánaða, fyrst og fremst vegna hækkunar á eldsneytisverði. Matur og drykkur mun að mati greiningarinnar hækka um rúmt 1% á milli mánaða en matvara og eldsneyti eru þeir liðir VNV sem hvað hraðast breytast eftir gengisþróun krónu.

Samanlagt vega þessir þættir til u.þ.b. 0,5% hækkunar VNV. Á móti spáir greiningin því að reiknuð húsaleiga í VNV muni lækka um 3%, sem hefur áhrif til ríflega 0,5% lækkunar vísitölunnar. Áhrif annarra undirliða á vísitöluna eru minni í spánni, en samanlagt leiða þeir til þeirrar 0,3% hækkunar á VNV sem við spáum nú.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×