Viðskipti innlent

Fjárfestar hafa sýnt Securitas áhuga

Úr myndasafni.
Úr myndasafni.

Nokkrir fjárfestar hafa haft samband við skiptastjóra þrotabús Fons og lýst yfir áhuga á að kaupa öryggisfyrirtækið Securitas. Fyrirtækið er verðmætasta innlenda eignin í þrotabúinu. Ekki hefur verið ákveðið hvort það verður auglýst til almennrar sölu eða tilboði í það einfaldlega tekið.

Guðjón Ólafur Jónsson lögmaður hefur starfað með skiptastjóra að þrotabúinu. Hann segir menn hafa haft samband strax þegar Fons varð gjaldþrota og lýst yfir áhuga á að kaupa Securitas, sem og aðrar eignir. Þegar hefur hlutur Fons í sænskri ferðaskrifstofu verið seldur, sem og í einni danskri.

Guðjón segir enn óljóst hvort Securitas verði sett í almenna sölu. „Skiptastjóri ákveður það, en það er líklegast að það gerist. Ákvörðun hefur ekki verið tekin, en líklegast er í stöðunni að það verði sett í eitthvert söluferli." Guðjón segir þó að ef menn komi með fulla vasa fjár og vilji kaupa fyrirtækið gæti það breytt stöðunni.

Landsbankinn, eða NBI, gerði kröfu um fullgilt veð í Securitas. Það hefði þýtt að bankinn hefði getað leyst fyrirtækið til sín, eða tekið hagnaðinn af sölunni. Skiptastjóri hafnaði þeirri kröfu á skiptafundi, en NBI mótmælti því. Líklegast er að þeirri deilu verði skotið til dómstóla enda um háar fjárhæðir að ræða. Gangi krafa bankans ekki eftir verður hagnaði af sölunni dreift til allra kröfuhafa samkvæmt gjaldþrotalögum.

Ákvörðun um hvernig að sölu Securitas verður staðið verður tekin nú með haustinu. Guðjón Ólafur segir að möguleg málshöfðun vegna veðs í fyrirtækinu eigi ekki að hafa áhrif á slíkt ferli.

Talið er að kröfur í þrotabú Fons nemi um tuttugu milljörðum króna. Óljóst er hverjar eignir félagsins eru, en þær gætu numið um tíu til tólf milljörðum króna, þar af um fjórum milljörðum í reiðufé. Ekki náðist í skiptastjóra, Óskar Sigurðsson, við gerð fréttar­innar.kolbeinn@frettabladid.is








Fleiri fréttir

Sjá meira


×