Innlent

Útilokar að ræða lækkun á launatöxtum við stjórnvöld

Guðlaug Kristjánsdóttir, formaður Bandalags háskólamanna,
Guðlaug Kristjánsdóttir, formaður Bandalags háskólamanna, Mynd/Stefán Karlsson

Guðlaug Kristjánsdóttir, formaður Bandalags háskólamanna, útilokar að ræða kerfisbundna lækkun á launatöxtum stéttarfélaga innan bandalagsins við stjórnvöld.

Forystumenn ríkisstjórarinnar sögðu á fundi með blaðamönnum í morgun að laun rúmlega 9000 opinberra starfsmanna sem hafa yfir 400 þúsund krónur í heildarlaun verði endurskoðuð. Forðast verður að segja upp fólki eftir fremsta megni.

„Ef stjórnin ætlar að taka einhverja kerfisbundna lækkun á töxtum þá er það bara ekki til umræðu," segir Guðlaug í samtali við fréttastofu og bendir á að síðustu mánuðum hafi laun opinberra starfsmanna verið lækkuð umtalsvert. Vinnufyrirkomulagi hafi verið breytt, dagvinnufólk gert að vaktavinnufólki, yfirvinna skorin niður og akstursgreiðslur lækkaðar.

„Eitt er kjaraskerðing og annað er launaskerðing. Þetta er ekki einfalt eins og um er rætt," segir formaðurinn.

Þess vegna hafi stjórn Bandalags háskólamanna talið brýnt að árétta fyrri afstöðu sína í málinu. Stjórnin gerir sér fulla grein fyrir ástandi ríkisfjármála og nauðsyn þess að lækka útgjöld og beita öllum tiltækum ráðum til sparnaðar, að fram kemur í tilkynningu.

„Bandalagið hefur í yfirstandandi kjaraviðræðum aldrei minnst á það að hækka laun félagsmanna sinna. En stéttarfélög innan BHM munu ekki taka þátt í því að lækka launataxta félagsmanna sinna og geri ríkisstjórnin það einhliða er viðræðum um stöðuleikasáttmála lokið af hálfu bandalagsins," segir í tilkynningu stjórnar Bandalags háskólamanna.








Tengdar fréttir

Helmingur opinberra starfsmanna getur búist við launalækkun

Helmingur opinberra starfsmanna má búast við endurskoðun heildarlauna. Hægt verður á vegaframkvæmdum eða þeim frestað, nefndakostnaður skorinn niður um helming, aðkeypt sérfræðiþjónusta snarminnkuð og setja á meiri hörku í að draga úr skattsvikum. Þetta er meðal þess sem stjórnvöld ætla að gera til að skera niður til að draga úr fjárlagahallanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×