Viðskipti innlent

September sá næststærsti í ferðamennsku frá upphafi

Erlendir ferðamenn voru 3,3% færri í septembermánuði samanborið við sama tíma í fyrra, en alls fóru ríflega 42 þúsund erlendir gestir frá landinu um Leifsstöð. Þrátt fyrir þessa fækkun erlendra gesta er þetta annar stærsti septembermánuður frá upphafi talningar samkvæmt tölum sem Ferðamálastofa birti í morgun.

 

Greining Íslandsbanka fjallar um tölurnar í Morgunkorni sínu. Þar segir að á fyrstu níu mánuðum ársins hafa alls farið tæplega 396 þúsund erlendir gestir frá landinu og er það fjölgun upp á 0,5% frá sama tímabili árið 2008.

 

Íslensk ferðaþjónusta hefur því notið góðs af lágu gengi krónunnar á tímum alþjóðlegs samdráttar í greininni, og benda ýmsar tölur til þess að erlendir ferðamenn sem leggja leið sína hingað til lands geri mun betur við sig en undanfarin ár, eins og í mat, drykk og afþreyingu.



Á hinn bóginn fækkaði brottförum Íslendinga um 35,4% í september frá sama mánuði fyrir ári, og er það í líkum takti og verið hefur á árinu. Samtals voru brottfarir Íslendinga tæplega 22 þúsund í september en voru um 24 þúsund á árinu 2008.

 

Frá áramótum hefur brottförum Íslendinga fækkað um 43,8%, eða sem nemur um 151 þúsund á milli ára. Þessi þróun kemur ekki á óvart enda hefur kaupmáttur Íslendinga á erlendri grundu snarminnkað og efnahagsleg skilyrði þeirra tekið miklum stakkaskiptum til hins verra, sem hefur haft þau áhrif að landinn hefur snardregið úr utanferðum.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×