Erlent

Boðar gríðarlegan niðurskurð í opinberum rekstri

Jón Hákon Halldórsson skrifar
George Osborne boðar gríðarlegan niðurskurð í opinberum rekstri.
George Osborne boðar gríðarlegan niðurskurð í opinberum rekstri.
George Osborne, fjármálaráðherra í skuggaráðuneyti breska Íhaldsflokksins, boðar afar strangar aðhaldsaðgerðir í opinberum fjármálum fari Íhaldsflokkurinn með sigur í næstu þingkosningum í Bretlandi. Samkvæmt þeim yrði niðurskurðurinn í ríkisrekstrinum sá mesti í 30 ár.

Osborne hefur kynnt nákvæmar niðurskurðartillögur sem fela í sér launafrystingu hjá fimm milljónum opinberra starfsmanna sem hann telur að gæti þýtt 23ja milljarða punda sparnað í ríkisrekstri á næstu fimm árum. Upphæðin samsvarar um 4500 milljörðum íslenskra króna.

Tillögur Osbornes hafa komið mörgum á óvart enda er talið líklegt að þær myndu hafa áhrif á fjölmarga kjósendur. Þar á meðal fólk úr læknastétt, hjúkrunarfræðinga og lögreglumenn.

Osborne segist hins vegar sjálfur vilja vera hreinskilinn varðandi þá miklu erfiðleika sem Bretar standi frammi fyrir í efnahagslífinu. Allir þurfi að viðurkenna að erfiðleikar séu framundan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×