Viðskipti innlent

ÍLS lækkar áætlun sína um útgáfu íbúðabréfa á árinu

Íbúðalánasjóður (ÍLS) hefur lækkað áætlun sína um útgáfu íbúðabréfa til fjármögnunar nýrra útlána um 9 til 11 milljarða kr. frá fyrri áætlun sem gefin var út í júlí. Í endurskoðaðri útgáfuáætlun, sem sjóðurinn birti í morgun, er gert ráð fyrir 6 til 8 milljarða kr. útgáfu íbúðabréfa á seinasta fjórðungi ársins.

Greining Íslandsbanka fjallar um málið í Morgunkorni sínu. Þar segir að samkvæmt því verður útgáfa íbúðabréfa á þessu ári samtals á bilinu 19 til 21 milljarðar kr., en til samanburðar gaf ÍLS út ný íbúðabréf fyrir 34,3 milljarða kr. á síðasta ári og útgáfan nam 55,8 milljörðum r. árið 2007.

ÍLS áætlar að útlán sjóðsins á yfirstandandi ári muni nema 31 til 33 milljörðum kr., en þegar hefur sjóðurinn lánað 24 milljarða kr. á fyrstu níu mánuðum ársins. Sjóðurinn tekur raunar fram að óvissa í áætlunum þeirra sé töluverð vegna ástandsins á fjármála- og fasteignamarkaði.

Greining telur að útlán sjóðsins, og þar með einnig ný útgáfa íbúðabréfa, muni reynast í lægri kanti þeirra bila sem áætlun hans hljóðar upp á. Enn eru fá teikn á lofti um að fasteignamarkaður sé að taka við sér að ráði og samkvæmt nýlega birtu mánaðaryfirliti ÍLS var lausafjárstaða sjóðsins góð á síðastliðnum ársfjórðungi.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×