Innlent

Ögmundur: Stjórnin ekki að springa

Ögmundur Jónasson þingmaður Vinstri grænna vill að samstarfsamningi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn verði sagt upp nú þegar og Alþingi taki að nýju á Icesave málinu. Hann segir ríkisstjórnina hafa verið stofnaða til að verja norrænt velferðarkerfi en ekki til að fara í samstarf við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra og formaður Vinstri grænna, kemur til landsins klukkan hálf fjögur af ársfundi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í Istanbúl í Tyrklandi. Þar hefur hann reynt að ýta á eftir afgreiðslu sjóðsins á endurskoðun efnahagsáætlunar Íslands hjá sjóðnum og að þoka Icesave deilunni áleiðis í viðræðum við fjármálaráðherra Breta og Hollendinga. Mikill titringur er innan ríkisstjórnarinnar vegna málflutnings Ögmundar Jónassonar, fyrrverandi heilbrigðisráðherra, varðandi Icesave og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og verða þau mál væntanlega efst á dagskrá þingflokksfundar síðdegis.

Margir velta fyrir hvort stjórnin springi vegna ágreining Ögmundar við stjórnina. „Já eða ágreinings stjórnarinnar við mig og ekki bara mig. Þetta snýst um fjölmarga aðra. Ég held að þessi ríkisstjórn sé ekki að springa. Alla vega hefur það komið í mínu máli og það er sannfæring á bak við það að ég vill ekki að þessi stjórn springi. Þess vegna vék ég úr stjórninni," sagði Ögmundur Jónasson skömmu fyrir hádegi í dag.

Sér hafi verið sagt af formönnum stjórnarflokkanna að ef allir ráðherrar töluðu ekki einni röddu í Icesave málinu væri eki hægt að halda stjórnarsamstarfinu áfram.

„Þessi ríkisstjórn var ekki mynduð um tiltekna lausn í Icesave málinu. Þessi stjórn var ekki mynduð um Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og fara að hans vilja. Þessi stjórn var mynduð til þess að hefja á hún fána hins norrænna velferðarsamfélags."

Það sé stjórnin að gera og þess vegna sé hann stuðningsmaður ríkisstjórnarinnar og hafi engan áhuga á að sprengja hana. Hann segist hins vegar ekki sammála þeim sem telji Ísland þurfa á öllum þeim gjaldeyrisforða að halda sem áætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins geri ráð fyrir.

„Við sameinuðumst um þessa ríkisstjórn til þess að verja velferðarsamfélagið og styrka það inn í framtíðina," sagði Ögmundur.

Aðspurður hvort að stjórnvöld eigi að hætta samstarfinu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn svaraði Ögmundur: „Því fyrr, því betra."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×