Erlent

Tugir manna handteknir

Átök í Istanbúl Grímuklæddir mótmælendurnir voru vopnaðir eldsprengjum og teygjubyssum.nordicphotos/AFP
Átök í Istanbúl Grímuklæddir mótmælendurnir voru vopnaðir eldsprengjum og teygjubyssum.nordicphotos/AFP

Lögreglan í Istanbúl beitti þrýstivatnsslöngum, táragasi og piparúða til að dreifa hundruðum manna sem komu saman til að mótmæla ársfundi Alþjóðabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Tugir grímuklæddra mótmælenda flúðu út í hliðargötur frá Taksimtorgi, sem er skammt frá fundarstaðnum. Á leiðinni brutu þeir rúður á MacDonalds-veitingastað og í nokkrum bönkum ásamt því að skemma bifreiðar.

Mótmælendurnir reyndu síðan hvað eftir annað að ráðast til atlögu gegn lögreglunni, vopnaðir eldsprengjum og slöngvibyssum.

Meira en 70 mótmælendur voru handteknir, en lögreglan hafði girt fundarstaðinn af með rammgerðum hindrunum.

Talið er að flestir mótmælendanna hafi komið úr röðum lítilla vinstriflokka og verkalýðsfélaga. Einnig er talið að hópur erlendra mótmælenda hafi verið með í aðgerðunum.

Viðræður um aðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins við Tyrkland hafa gengið hægt. Tyrknesk stjórnvöld hafa verið treg til að fallast á kröfur sjóðsins um niðurskurð ríkisútgjalda og aðhaldsaðgerðir.

Í síðustu viku kastaði fjölmiðlanemi skó í áttina að Dominique Strauss-Khan, framkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, þegar hann svaraði spurningum í háskóla í Istanbúl.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×