Viðskipti innlent

Unga fólkið bætist í hóp svartsýnna landsmanna

Væntingar neytenda drógust saman í júní annan mánuðinn í röð. Mælist Væntingavísitala Capacent Gallup sem birt var í morgun nú 12% lægri en hún var í fyrri mánuði og stendur í 26,4 stigum. Vísitalan mælir væntingar neytanda til efnahags- og atvinnulífsins. Væntingar ungs fólks dragast mikið saman.

Greining Íslandsbanka fjallar um málið í Morgunkorni sínu. Þar segir að þetta komi varla á óvart í ljósi þess að verðbólga hefur aukist á nýjan leik, gengi krónunnar hefur haldið áfram að lækka, skattahækkanir hafa verið kynntar til sögunnar og óvissa ríkir varðandi Icesave samningana.

Lækkun á vísitölunni nú, annan mánuðinn í röð, bendir til þess að svartsýni virðist nú vera að festa sig í sessi á nýjan leik meðal neytenda eftir að hafa verið á undanhaldi samfellt síðan í febrúar. Það sem vegur þyngst í lækkun vísitölunnar nú er lækkun á væntingum yngsta aldurshópsins sem hingað til hefur verið hvað bjartsýnastur.

Væntingar fólks á aldrinum 16- 24 ára dragast saman um 27 stig frá fyrri mánuði en líklega er að þar hafi áhrif slæmar horfur varðandi sumarvinnu fyrir námsfólk á þessum aldri. Undirvísitala sem mælir væntingar um að aðstæður batni eftir 6 mánuði lækkar um 7,5 stig frá fyrri mánuði, mat á núverandi aðstæðum í efnahagslífinu lækkar um 8 stig og mat á atvinnuástandi lækkar um 3,4 stig á milli mánaða.

Vísitala Capacent Gallup fyrir fyrirhuguð stórkaup á bifreiðum, íbúðum og utanlandsferðum sem birt er ársfjórðungslega hækkar lítillega eða um 1,8 stig frá síðustu mælingu sem fór fram í mars. Bendir það til þess að fleiri en áður geta nú hugsað sér að ráðast í stórkaup á næstu 6 mánuðum. Vístölur fyrir fyrirhuguð stórkaup eru þó enn í grennd við söguleg lágmörk og hafa skal í huga að mikill meirihluti aðspurðra telur það enn mjög ólíklegt að ráðist verði í nokkur stórkaup á næstu 6 mánuðum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×