Innlent

Tímaáætlun liggur ekki fyrir

Stýra ferðinni Seðlabanki Íslands heldur utan um gjaldeyrishöft og framkvæmd þeirra. Fréttablaðið/Stefán
Stýra ferðinni Seðlabanki Íslands heldur utan um gjaldeyrishöft og framkvæmd þeirra. Fréttablaðið/Stefán

Ákveðnum áföngum þarf að ná áður en hægt verður að stíga næstu skref í afnámi gjaldeyrishafta, segir Mark Flanagan, yfirmaður sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) á Íslandi. Sjóðurinn kynnti í gær niðurstöður viðræðna við stjórnvöld og fleiri aðila síðustu tvær vikur vegna annarrar endurskoðunar efnahagsáætlunar stjórnvalda og sjóðsins.

Fyrstu skrefin í afnámi hafta hafa þegar verið tekin og mögulega segir Flanagan hægt að taka eitt eða tvö til viðbótar á næsta ári. „En þetta er nokkuð sem við skoðum við hverja endurskoðun samkomulagsins og þetta mat er nokkuð flókið,“ segir hann og kveður tvær meginforsendur þess að hægt sé að afnema höft fullkomlega starfhæft og stöðugt fjármálakerfi sem lúti viðeigandi eftirliti.

„Og þangað höfum við ekki enn alveg náð,“ segir hann og kveður vandlega fylgst með öðrum þáttum sem einnig þurfi að vera í lagi, svo sem fjármögnun ríkisins.

„Þessa stundina er það metið sem svo að ekki verði hægt að gera breytingar á næstunni,“ segir Flanagan, en bætir um leið við að staðan sé í stöðugri endurskoðun. „Eins og við höfum löngum sagt er markmiðið þó að afnema höftin eins hratt og hægt er, en þó í samræmi við markmið um að viðhalda stöðugleika krónunnar.“ - óká




Fleiri fréttir

Sjá meira


×